Ár 2022, föstudaginn 18. mars kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og um fjarfundarbúnað og hófst fundurinn kl. 9:00
Mætt
Skúli Helgason, formaður
Örn Þórðarson
Sabine Leskopf
Magnús Smári Snorrason
Um fjarfundarbúnað
Daníel Ottesen
Ólafur Kr. Guðmundsson
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Ragnar B. Sæmundsson
Ólafur Adolfsson, áheyrnarfulltrúi
Auk þeirra voru, Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri framkvæmdasviðs og Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri sem ritaði fundargerð.
1. Öryggi, heilsa og umhverfi
Enn eru í gildi sóttvarnarráðstafanir fyrir hafnsögumenn sem fara um borð í skip. Aðrar ráðstafanir hafa verið felldar niður.
Ekki höfðu orðið slys eða alvarleg umhverfisatvik frá síðasta fundi. Síðasta skyndihjálparslys var 2.3.2022 en ekki hefur orðið fjarveruslys síðan 25.4.2021.
Tólf ábendingar og atvik voru skráð í ábendingarkerfi á tímabilinu 15.1. til 14.3.2022 og var brugðist við þeim.
2. Umhverfisskýrsla Sundahafnar
Fyrir fundinum lá umhverfisskýrsla (mat á umhverfisáhrifum) vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Sundahafnarsvæði ásamt innsendum athugasemdum og svörum Faxaflóahafna við athugasemdum. Sviðsstjóri Framkvæmdasviðs fór yfir helstu athugasemdir og svör við þeim. Skýrslan ásamt athugasemdum gefur ekki tilefni til annars en að álit Skipulagsstofnunar verði meðmælt þeim framkvæmdum sem kynntar voru í skýrslunni. Álit Skipulagsstofnunar er væntanlegt 20. mars.
3. Framkvæmdir, skipulag og forkaupsréttarmál
Ólafur Melsted, skipulagsfulltrúi, tók þátt í fundinum undir þessum lið.
i. Útboðsmál
Sviðsstjóri Viðskiptasviðs gerði grein fyrir stöðu útboða vegna rafbúnaðar á Faxagarði og v. stálinnkaupa fyrir aðalhafnargarð á Akranesi. Greint var frá því hvernig staðið var að útboðunum og hvaða tilboðum var tekið. Jafnframt að stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hefði áhrif til hækkunar á stálverð og að það gæti haft áhrif á útboðsferlið.
ii. Bensínstöð við Fiskislóð
Skipulagsfulltrúi kynnti tillögu að deiliskipulagsbreytingu á lóðinni Fiskislóð 15 – 21. Breytingin varðar staðsetningu fyrir eldsneytisdælur og rafhleðslustöðvar á lóðinni. Tillagan var samþykkt.
iii. Deiliskipulagsbreyting við Skútuvog
Skipulagsfulltrúi kynnti tillögu að deiliskipulagsbreytingu á lóðinni Skútuvogur 5 – 9. Tillagan var samþykkt.
iv. Erindi Skeljungs hf. um að fallið sé frá forkaupsrétti að fasteignum vegna sölu á eignum Skeljungs við Hólmaslóð 1 Fasta nr. 200-0005, Hólmaslóð 2 Fasta nr. 200-0012, Hólmaslóð 4 Fasta nr. 225-4978, Hólmaslóð 5 Fasta nr. 200-0039, Hólmaslóð 6 Fasta nr. 200-0023, Eyjargarður 1 Fasta nr. 223-7937 og Eyjargarður 2 Fasta nr. 224-0936. Kaupandi er Gallon ehf. sem er dótturfélag að fullu í eigu Skeljungs hf.
Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að afnot lóðar falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningi.
4. Grundartangi – Ferli við úthlutun lóða
Hafnarstjóri kynnti drög að ferli við úthlutun lóða á Grundartanga. Aðstæður byðu ekki upp á opið útboð en að tilefni væri til að auglýsa lóðir. Bent var á að í deiliskipulagi væru lóðirnar ýmist skilgreindar sem iðnaðarlóðir eða athafnalóðir og í auglýsingu bæri að taka mið af því. Stjórn óskaði eftir því að lóðir yrðu auglýstar jafnt í staðarmiðlum sem miðlum með meiri dreifingu. Faxaflóahafnir, Þróunarfélag Grundartanga og Hvalfjarðarsveit verði skrifuð fyrir auglýsingu lóða.
5. Ársreikningur 2021
Theodór Sigurbergsson, endurskoðandi Faxaflóahafna, og Lárus Finnbogason, formaður endurskoðunarnefndar mættu á fundinn undir þessum lið. Drög að uppgjöri 2021 höfðu áður verið kynnt á 216. fundi stjórnar, 18. febrúar 2022. Endurskoðandi fór yfir ársskýrslu og endurskoðunarskýrslu. Ársskýrsla var undirrituð af stjórn og hafnarstjóra. Endurskoðandi fór jafnframt yfir fyrirliggjandi ábendingarskýrslu og helstu atriði til úrbóta. Formaður endurskoðunarnefndar fór yfir skýrslu endurskoðunarnefndar og lagði áherslu á að fylgja eftir ábendingum endurskoðenda. Hann lagði jafnframt til við stjórn að hún óskaði eftir tímasettri áætlun um lúkningu ábendinga.
Skúli Helgason, stjórnarformaður, lagði fram eftirfarandi bókun:
„Stjórn beinir því til hafnarstjóra að leggja fram tímasetta áætlun um lúkningu ábendinga skv. ábendingarskýrslu endurskoðenda og að hún verði kynnt á næsta fundi stjórnar.“
Bókunin var samþykkt.
6. Erindi Hringiðu, Græns viðskiptahraðals, um styrk
Erindi Hringiðu, Græns viðskiptahraðals, um styrk vegna hraðalsins 2022 var samþykkt. Stjórn taldi jákvætt að taka þátt í nýsköpunarverkefnum og að tengja fyrirtækið við háskólaumhverfið.
7. Erindi frá Reykjavíkurborg; Hröð orkuskipti í Reykjavík
Lagt fram til upplýsingar. Í áætlun Reykjavíkurborgar um hröð orkuskipti eru verkefni sem snúa að Faxaflóahöfnum. Óskað var eftir því að hafnarstjóri gerði frekari grein fyrir stöðu þeirra verkefna á næsta fundi stjórnar.
8. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra
Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra.
9. Önnur mál
Ekki voru önnur mál og fundi slitið kl. 11:05.