Ár 2022, föstudaginn 21. janúar kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman um fjarfundarbúnað og hófst fundurinn kl. 9:00
Um fjarfundabúnað
Skúli Helgason, formaður
Örn Þórðarson
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Marta Guðjónsdóttir
Lilja B. Ágústsdóttir
Daníel Ottesen
Ragnar B. Sæmundsson
Sabine Leskopf
Ólafur Adolfsson, áheyrnarfulltrúi
Auk þeirra voru, Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri framkvæmdasviðs og Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri sem ritaði fundargerð.
1. Öryggi, heilsa og umhverfi
Ekki höfðu orðið alvarleg umhverfis- eða öryggisatvik frá síðasta fundi. Sóttvarnarráðstafanir voru hertar frá 15. janúar í samræmi við tilmæli Landlæknis. Fjöldi á starfsstöð er takmarkaður við 10 starfsmenn og aðgreining viðhöfð á milli starfsstöðva. Tveir starfsmenn eru í einangrun vegna Covid smits.
Farið var yfir ársyfirlit 2021 um öryggis-, heilsu og umhverfismál. Atvikaskráningum fjölgaði á milli ára og er það vel, óhöppum og tjónum fjölgaði úr 20 í 27 sem er verra en ástæðan getur einnig verið að mikil áhersla var á skráningu óhappa á árinu. Fjarveruslysum fækkaði úr 4 í 2 og mengunaratvikum fækkaði úr 13 í 8.
Þróun ársins 2021 í skráningum og atvikum er almennt jákvæð.
2. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra
Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra.
Undir þessum lið fór fram umræða um áhuga og eftirspurn eftir lóðum á Grundartanga einkum fyrir vetnisframleiðslu. Stjórn lýsti vilja sínum til að úthlutun lóða yrði í eins opnu ferli og mögulegt væri.
3. Forkaupsréttarmál:
a. Erindi 061319 ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign að Grandagarði 5, Reykjavík. Fasta nr. 200-0171. Kaupandi JÁS ehf.
b. Erindi Dalsnes ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eign að Skútuvogi 1F, Reykjavík. Fasta nr. 202-0906. Kaupandi BSV ehf.
Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að afnot lóðar falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningi.
4. Matsmál vegna Korngarða 3
Hafnarstjóri rakti sögu málsins. Dómkvaddir matsmenn luku matsgerð 21. desember 2021. Í kjölfarið upplýsti matsbeiðandi, Dalsnes, lögmann Faxaflóahafna um að matsgerðin hefði ekki verið hagstæð Dalsnesi en að félagið muni meta hvort frekari spurningum verði beint til matsmanna.
5. Sviðsmyndir vegna þróunar Sundahafnarsvæðis
Til umræðu voru skýrsludrög Drewry sem kynnt höfðu verið á 214. fundi stjórnar þ. 14. janúar 2022. Næstu skref eru kynning á drögum og samtal um sviðsmyndir við stærstu hagaðila. Framhald skipulags í Sundahöfn ræðst síðan m.a. af ákvörðunum um legu Sundabrautar en von er á nýrri skýrslu starfshóps um Sundabraut með félagshagfræðilegri greiningu, á næstu dögum.
Sviðsstjóri framkvæmdasviðs fór yfir áætlaðan kostnað Faxaflóahafna vegna breytinga á hafnarsvæði verði af lagningu Sundabrautar um brú.
6. Erindi Þróunarfélags Grundartanga um fjárframlag
Lagt var fram að nýju erindi frá Þróunarfélagi Grundartanga frá 211. fundi 27. október 2021. Í samræmi við ákvörðun þess fundar hefur verkaskipting milli Faxaflóhafna og Þróunarfélagsins verið skýrð. Samþykkt var beiðni um fjárframlag Faxaflóahafna til Þróunarfélgs Grundartanga fyrir árið 2021 um 10 milljónir kr.
7. Starfsáætlun stjórnar
Hafnarstjóri lagði fram tillögu að starfsáætlun stjórnar fyrir 2022. Tillagan verður rýnd af stjórnarmönnum og tekin upp til samþykktar á næsta fundi stjórnar.
8. Fjölmiðlaskýrsla 2021
Fyrirliggjandi var fjölmiðlaskýrsla CreditInfo um umfjöllun miðla um Faxaflóahafnir á árinu 2021 og voru helstu atriði hennar skoðuð. Jafnframt greindi hafnarstjóri frá því að félagið myndi á næstunni verða sýnilegt á samfélagsmiðlunum Instagram og LinkedIn, auk Facebook en þar hafa Faxaflóahafnir haldið virka síðu síðan 2016.
Umræða var um mikilvægi ímyndar félagsins og frumkvæðis í umfjöllun og samskiptum við samfélagið.
9. Skipulag hafnarþjónustu
Hafnarstjóri kynnti nýtt skipulag í hafnarþjónustu sem ætlað er að styrkja mönnun m.t.t. verkefna og skipulags vinnutímastyttingar. Viðræður um málið hafa staðið við starfsmenn um nokkurt skeið.
10. Önnur mál
Ekki voru önnur mál og fundi slitið kl. 11:00.