Ár 2021, föstudaginn 20. ágúst kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman um fjarfundarbúnað og í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 9:00
Mætt
Skúli Helgason, formaður
Magnús Smári Snorrason
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Örn Þórðarson
Pétur Óskarsson, áheyrnarfulltrúi
Um fjarfundarbúnað:
Marta Guðjónsdóttir
Daníel Ottesen
Ragnar B. Sæmundsson
Sabine Leskopf
Ólafur Adolfsson, áheyrnarfulltrúi
Auk þeirra voru Inga Rut Hjaltadóttir sviðsstjóri Framkvæmdasviðs, Gunnar Tryggvason, sviðsstjóri Viðskiptasviðs og Magnús Þór Ásmundsson, hafnarstjóri, sem ritaði fundargerð.
Skúli Helgason var kynntur sem nýr formaður stjórnar og var honum óskað velfarnaðar. Sabine Leskopf var jafnframt boðin velkomin sem ný í stjórn.
1. Öryggi, heilsa og umhverfi
Sóttvörnum er hagað í takti við fyrirmæli sóttvarnarlæknis.
Sumarið gekk vel og engin alvarleg meiðsli urðu á starfsfólki. Sumarstarfsfólk er vann við umhirðu og viðhald stóð sig vel og engin alvarleg öryggisatvik komu upp.
2. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra
Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra.
3. Forkaupsréttarmál:
a. Erindi Fasti eignarhaldsfélags ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eigninni að Fiskislóð 71-73, Reykjavík. Fasta nr. 200-0051 og 200-0052. Kaupandi ÁÁ 29 ehf.
Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að afnot lóðar falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningi.
4. Skipulag og framkvæmdir
Staða verkefna og útboðsmála kynnt af sviðsstjóra Framkvæmdasviðs. Malbikunarframkvæmdum sem áætlaðar voru í sumar er lokið. Útboði vegna framkvæmda við Óðinsbryggju er lokið og gengið verður til samninga við lægstbjóðanda, sem er Aðalvík. Framkvæmdir hefjast í september. Útboði vegna frágangs lóðar við Sægarða 1 lauk í júní og gengið var til samninga við lægstbjóðanda sem var Verktækni. Framkvæmdatími er frá ágúst til desember. Útboði vegna þekju á Tangabakka lauk í júlí. Tilboð voru verulega umfram kostnaðaráætlun og var þeim hafnað og verða forsendur í verkefninu endurskoðaðar. Framkvæmdir eru í gangi í verkefnum vegna grjótvarna við Fiskislóð í Örfirisey og í lagnavinnu vegna landtenginga á Faxagarði.
5. 6 mánaða uppgjör, jan – jún 2021
Sviðsstjóri Viðskiptasviðs gerði grein fyrir meginniðurstöðum 6 mánaða uppgjörs. Tekjur voru yfir áætlun og rekstrargjöld undir áætlun.
6. Viðræður við Qair um aðstöðu á Grundartanga
Franska fyrirtækið Qair hefur óskað eftir lóð á Grundartanga fyrir vetnis- og vetnisafleiðuframleiðslu til útflutnings. Fleiri fyrirtæki hafa sýnt sambærilegan áhuga. Samþykkt var að halda viðræðum opnum við alla aðila, bíða úrræða eða viljayfirlýsinga um orkuöflun og fara yfir málið með sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar.
7. Úrræði v. aðila í ferðaþjónustu
Hafnarstjóri kynnti niðurstöður fundar með Samtökum ferðaþjónustu og ferðaþjónustuaðilum við Ægisgarð. Farið var yfir þau úrræði sem FFH hafa boðið vegna Covid aðstæðna og jafnframt frestun uppsafnaðra viðlegugjalda. Heimilt verður að fresta uppsöfnuðum viðlegugjöldum frá 2020 til 15. janúar 2022. Heimilt verður að fresta viðlegugjöldum jan – maí 2021 til 15. júlí 2022. Hafnarstjóra var falið að ljúka málum við aðila í samræmi við umræður á fundinum.
8. Farþegaskip
72 komur eru bókaðar 2021 og að mestu að raungerast. Allar skipakomur 2021 eru farþegaskipti. Að svo stöddu eru 181 skipakoma bókuð 2022, þar af 98 farþegaskipti.
Farþegaskipti kalla á breyttar þarfir fyrir afgreiðslu farþega og farangurs og hafnarstjóri kynnti hugmyndir um uppbyggingu aðstöðu. Hafnarstjóra var falið að mynda starfshóp sem greina mun þarfir og gera tillögur að uppbyggingu. Samsetning starfshóps verði kynnt á næsta fundi stjórnar.
9. Þróunaráætlun Gömlu hafnar
Hafnarstjóri kynnti hugmynd um vinnu að „þróunaráætlun“ Gömlu hafnar í stað „rammaskipulags“ að fenginni tillögu frá skipulagsfulltrúa Reykjavíkur.
10. Erindi frá Árna Hjörleifssyni, oddvita Skorradalshrepps
Erindi Árna Hjörleifssonar um sölu hlutar Skorradalshrepps til annarra eigenda FFH var lagt fram. Erindið verður framsent til annarra eigenda.
11. Önnur mál
Ekki önnur mál og fundi slitið kl. 11:10.