Ár 2019, föstudaginn  20. september kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman til fundar í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 09:00.

Mætt:

Skúli Helgason, formaður
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Örn Þórðarson
Ragnar B. Sæmundsson
Marta Guðjónsdóttir
Magnús Már Snorrason
Daníel Ottesen
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

Áheyrnarfulltrúar:

Ólafur Adolfsson
Guðbjörg Erna Erlingsdóttir

Auk þess sátu fundinn: Hildur Gunnlaugsdóttir, skipulagsfulltrúi, Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri, Gunnar Tryggvason, aðstoðarhafnarstjóri, Guðmundur Eiríksson, forstöðumaður tæknideildar og Gísli Gíslason, hafnarstjóri,  sem ritaði fundargerð.

 

  1. Bréf Reykjavíkurborgar dags. 6.9.2019 um breytingu á skipan stjórnar Faxaflóahafna sf. þar sem tilkynnt er um að Skúli Helgason verði formaður stjórnar og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir taki sæti í stjórninni.

Lagt fram.

  1. Fjárhagsáætlun ársins 2020 og áætlun 2020 – 2025 ásamt greinargerð hafnarstjóra. Gjaldskrá Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2020.

Hafnarstjóri fór yfir meginatriði fjárhagsáætlunar 2020 og áætlun fyrir árin 2021 til 2024 og gjaldskrá vegna ársins 2020.  Hafnarstjórn samþykkti áætlunina og breytingar á gjaldskrá sem taka gildi 1. janúar 2020 með þeirri viðbót að lögð er til 1% hagræðingarkrafa á rekstrarútgjöld komandi árs.

  1. Skýrsla starfshóps ríkis og SSH um Sundabraut, dags. í júlí 2019.

Stjórn þakkar fyrir kynningu á skýrslu starfshóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fulltrúa SSH um Sundabraut.  Stjórnin óskar eftir minnisblaði hafnarstjóra þar sem lagt er mat á áhrif þeirra tveggja kosta sem starfshópurinn telur raunhæfasta á hafnsækna starfsemi við Sundahöfn, þ.e. jarðgöng og lágbrú.

 

MG og ÖÞ leggja fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks Marta Guðjónsdóttir og Örn Þórðarson telja brýnt að ákvörðun um endanlega útfærslu og legu Sundabrautar  liggi fyrir sem fyrst og að framkvæmdin verði tímasett. Því miður hefur kostum fyrir legu Sundabrautar farið fækkandi á síðustu árum og nú síðast hefur einn þessara kosta verið sleginn út af borðinu með uppbyggingu á Gelgjutanga. Brýnt er að borgaryfirvöld tryggi það að fleiri kostir verði ekki útilokaðir í náinni framtíð. Nú á síðustu misserum hefur farið fram mikil skipulagsvinna í Elliðavogi og í Gufunesi og því er mikilvægt og löngu tímabært að ákveða endanlega legu og útfærslu brautarinnar svo aðrar skipulagsákvarðanir útiloki ekki hugsanlega besta kost í þeim efnum.“

  1. Staðfesting á jafnlaunavottun Faxaflóahafna sf. Vottorð vottunarfyrirtækisins BSI dags. 2.9.2019 og staðfesting Jafnréttisstofu dags. 10.9.2019.

Lagt fram. Stjórn fagnar staðfestingu Jafnréttisstofu á jöfnum launum kynjanna hjá Faxaflóahöfnum. Stjórnin vill standa vörð um hlut kvenna og auka hlut þeirra hjá Faxaflóahöfnum. Jafnlaunavottun er mikilvægt skref á þeirri vegferð.

  1. Tillaga að samræmdum merkingum á hafnarsvæðum.

Hafnarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að samræmdum merkingum og felur hafnarstjóra að vinna að framgangi verkefnisins.

  1. Skýrslur Hafsins Öndvegissetur og Íslenskrar NýOrku ehf, um landtengingar í Sundahöfn dags. sept. 2019.

Í skýrslunni kemur fram að hagkvæmt geti verið að vissum skilyrðum uppfylltum, að landtengja flutningaskip í Sundahöfn við háspennubúnað. Árangursríkast sé í þeim efnum að Faxaflóahafnir sf., orkufyrirtæki og skipafélögin vinni sameiginlega að verkefninu.

Hafnarstjórn felur formanni stjórnar og hafnarstjóra að ræða við hagsmunaaðila verkefnisins og vinna tímasetta áætlun um með hvaða hætti megi koma verkefninu í framkvæmd.

  1. Drög að samkomulagi Faxaflóahafna sf. og Fóðurblöndunnar hf. um ástands- og verðmat eigna við Korngarða.

Hafnarstjóri gerði grein fyrir málinu.  Hafnarstjórn samþykkir samkomulagið.

  1. Lóða- og skipulagsmál:
    • Tillaga að skipulagi á Línbergsreit við Fiskislóð.

Hafnarstjórn fellst á fyrirliggjandi tillögu og heimilar lóðarhafa að óska eftir formlegri meðferð skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur á breytingu á deiliskipulagi reitsins við Fiskislóð. ÓA vék af fundi við afgreiðslu málsins.

  • Erindi Megin lögmannsstofu dags. 8.7.2019  h. Opus fasteignafélags ehf. um aðilaskipti að úthlutun lóðarstækkunar að Fiskislóð 71  ásamt minnisblaði Magnúsar Baldurssonar hrl. dags. 17.9.2019

Hafnarstjórn samþykkir að heimila hafnarstjóra að ganga frá aðilaskiptum á lóðinni Fiskislóð 71.

  • Erindi Festi fasteigna ehf. dags.16.9.2019 ásamt tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna Skarfagarða 2, Reykjavík. Óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi og stækkun byggingarreits Skarfagarða 2.

Hafnarstjórn samþykkir að heimila lóðarhafa að óska formlegri meðferð skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur á breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar.  Samþykkt þessi er með fyrirvara um að greitt verði viðbótar lóðagjald fyrir aukið nýtingarhlutfall og þeim fyrirvara að þyngd viðbyggingar fari ekki umfram 5 tonna jafndreift álag.

  1. Forkaupsréttarmál:
    • Erindi Sjávarbakkans ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eigninni í Fiskislóð 31, Reykjavík. Fastanr. 250-0258. Kaupandi GBP-fasteignir ehf.
    • Erindi Reginn atvinnuhúsnæði ehf. um að fallið sé frá forkaupsrétti vegna sölu á eigninni Köllunarklettsvegi 4, Reykjavík. Fastanr. 201-5783. Kaupandi Kraflar fasteignir ehf.

Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti með venjulegum fyrirvara um að starfsemi verði í samræmi við lóðaleigusamninga og deiliskipulag.

Fleira ekki gert,

fundi slitið kl. 11:00

 

FaxaportsFaxaports linkedin