Faxaflóahafnir, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Björgunarbátasjóður Reykjavíkur, Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur, Björgunarfélag Akranes og Björgunarsveitin Brák hafa endurnýjað samkomulag um gagnkvæma aðstoð vegna björgunar og aðstoð við sjófarendur við Faxaflóa. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi og eins góðum viðbúnaði björgunaraðila og kostur er við Faxaflóa.
Sem viðurkenningu á mikilvægi þess að hafa vel þjálfaðan mannskap innan björgunarsveitanna og nauðsynlegan búnað til að sinna björgun og aðstoð við sjófarendur, styrkja Faxaflóahafnir rekstur björgunarsveita Ársæls, Kjalar, Akraness og Brákar sem nemur 6 milljónum króna árlega til ársins 2027. „Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir að mikilvægi öflugra björgunarsveita fyrir sjófarendur verði seint metið að fullu. Við fögnum áformum um endurnýjun búnaðar og aðstöðu sveitanna í okkar höfnum við Faxaflóahafna og viljum með þessu framlagi sýna þakklæti og létta undir með rekstri þessarar mikilvægu starfsemi.“
Slysavarnafélagið Landsbjörg og björgunarsveitirnar fjórar einsetja sér að tryggja eins gott
viðbragð við útköllum og kostur er á hafnarsvæði Faxaflóahafna og eru Faxaflóahafnir
reiðubúnar að veita þá aðstoð sem möguleg er hverju sinni.
Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Faxaflóasvæðinu eru með til reiðu björgunarskipin Jóhannes Briem, sem kom nýtt til Reykjavíkur haustið 2023, og Jón Gunnlaugsson á Akranesi. Auk þeirra eru björgunarsveitir á svæðinu með björgunarbátinn Sjöfn, Gróu Pétursdóttur og nýr björgunarbátur er væntanlegur á Akranes. Sveitirnar eiga einnig nokkurn fjölda sjóskíða og slöngubáta.
Faxaflóahafnir eiga fjóra dráttarbáta, sem unnt er að kalla til aðstoðar ef á þarf að halda.
Myndatexti:
Mynd 1: undirritun samnings: frá vinstri Ásgeir Kristinsson, Brynjar M. Bjarnason, Gunnar Tryggvason, Vigdís Ósk Viggósdóttir , Kristján Þór Harðarson, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Alex Uni Torfason.
Mynd 2: hópmynd: frá vinstri Brynjar M. Bjarnason, Björn J. Gunnarsson, Vigdís Ósk Viggósdóttir, Alex Uni Torfason, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Kristján Þór Harðarson, Gunnar Tryggvason og Ásgeir Kristinsson