Þróunarverkefni

Hafnir þróast – sumar hratt aðrar hægar.

Hafnir þróast – sumar hratt aðrar hægar.  Fyrsta stórvirkið í hafnargerð á Íslandi var þegar Gamla höfnin í Reykjavík var byggð á árunum 1913 til 1917.  Þá hófst í raun iðnvæðing á Íslandi með innflutningi stórvirkra vinnuvéla og tveggja eimlesta, sem fluttu grjót í hafnargarðana, sem enn í dag ramma inn meginstarfssvæði hafnarinnar.  Frá því að Gamla höfnin var tekin í notkun hefur hún þróast hratt á þeim 100 árum sem eru að verða liðin frá því framkvæmdum lauk þann 16. október 1917.  Árið 1966 var tekin ákvörðun um að byggja nýtt hafnarsvæði í Sundahöfn – sem á tæpum 50 árum hefur þróast í að verða megingátt flutninga til og frá Íslandi.  Akranes og Borgarnes hafa gengið í gegnum sína þróun og á Grundartanga hefur á síðustu árum átt sér stað þróun hafnarmannvirkja og starfsemi á svæðinu.  Þó svo að Íslendingar búi að mun skemmri hafnasögu en þekkist í flestum nágrannalöndum okkar hefur þróunin verið um margt lík og úrlausnarefnin sambærileg. Skip hafa viðkomur í erlendum höfnum og  þarfir skipa og flutninga eru þær sömu hér og erlendis.

Í þessari samantekt er reynt að varpa ljósi á nokkur helstu verkefni sem fyrirhuguð eru á hverju hafnarsvæði sem Faxaflóahafnir sf. stýra.

Gamla höfnin:

Á síðustu árum hefur orðið mikil breyting á starfsemi á Grandanum, Vesturbugt og í Suðurbugt.  Að auki hefur tilkoma Hörpu breytt ásýnd hafnarinnar og samhliða aukinni þjónustu og léttari starfsemi í Suðurbugt og á Grandanum dregið til sín gesti og gangandi.  Engin áform eru uppi um gagngera breytingu á starfsemi Gömlu hafnarinnar enda mikilvægt að höfnin verði um ókomin ár virk sjávarútvegs- og atvinnuhöfn og haldi þannig einkennum sínum.  Þau svæði sem geta og eiga að vera opin almenningi munu áfram taka jákvæðum breytingum en þar er bent á þróunina við Suðurbugt þar sem hvalaskoðunarfyrirtækin eru flest, Vesturbugt næst Sjóminjasafninu Víkinni, þar sem byggðar hafa verið göngubryggjur, á Grandanum með aukinni verslun og þjónustu og svo loks  á Norðurgarði þar sem umhverfislistaverkið Þúfan er orðin aðdráttarafl.  Í Vesturhöfninni er meginaðstaða útgerðar og fiskvinnslu, sem lykilatriði er að hlúa að þannig að Gamla höfnin verði áfram eina höfuðborgarhöfnin í Evrópu sem státar af umfangsmiklum og framsæknum útgerðarháttum og fiskvinnslu.  Hér má sjá skýrslu sem gerð var árið 2018 um atvinnulíf í Gömlu höfninni.

Sundahöfn:

Frá því að hafist var handa um hafnargerð í Sundahöfn hefur margt breyst.  Nýir hafnarbakkar og landfyllingar hafa sett svip sinn á svæðið og umsvif þar aukist verulega, enda er Sundahöfn ein af þungamiðjum í flutningum og atvinnustarfsemi á Íslandi.  Í dag má skipta svæðinu, sem er alls um 165 hektarar, í fjögur svæði:

  1. Klettasvæði og Skarfabakka, sem er nyrsti hluti Sundahafnar, en þar er m.a. aðstaða Hampiðjunnar, vöruhús og aðstaða skemmtiferðaskipa.
  2. Vatnagarðar og farmstöð Eimskipa, sem er alls um 32 ha.
  3. Þróunarsvæði utan Klepps, sem er um 20 ha. landfylling.
  4. Kleppsvík og Vogabakki, þar sem framstöð Samskipa sem er alls um 22ha. svæði.

Í Sundahöfn hefur fyrirtækjum fjölgað ár frá ári og þar eru nú starfandi yfir 100 fyrirtæki af ýmsum stærðum með um 3.000 starfsmenn. Þróunarverkefni Faxaflóahafna sf. næstu 10 – 15 ár byggjast á þremur framkvæmdum:

  1. Bygging nýs 470 metra hafnarbakka utan Klepps, sem kemur í stað núverandi Kleppsbakka, en með stækkandi og djúpristari flutningaskipum mun bakkinn ekki henta fyrir flutningastarfsemi í framtíðinni.
  2. Lenging Skarfabakka til austurs yfir í Kleppsbakka með landfyllingu í Vatnagörðum, sem áður var meginviðlegusvæði skipa Eimskipa.
  3. Gerð hafnarbakka, sem tengir nýjan Kleppsbakka og núverandi Vogabakka.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig þróunin mun verða á næstu árum, verði haldið við framkvæmdaáætlanir sem fyrir liggja.

Sundahöfn1Sundahöfn2Sundahöfn3

Þegar þessum framkvæmdum verður lokið eru hafnarmannvirki Sundahafnar byggð, en höfnin mun vissulega nýtast sem megin inn- og útflutningshöfn Íslands um ókomna áratugi ef vel er á spilum haldið.

Framkvæmdir við nýjan Kleppsbakka eru í gangi en á árinu 2016 má reikna með að verkefnið verði sýnilegra þegar kemur að niðurrekstri á stálþili. Á bakkanum mun Eimskip staðsetja nýja Gantry krana, sem gengur eftir spori, en nýr krani verður nokkru stærri en Jakinn, sem er kominn til ára sinna.  Fyrirhugaða legu bakkans má sjá á myndinni hér að neðan, en verklok eru áætluð á árinu 2018.

Þróun baksvæðis þessa nýja hafnarbakka og aðliggjandi svæði á eftir að þróa og rýna þannig að landnýting falli sem best að þörfum vöruflutninga og hafnarstarfsemi.

Hér má sjá tvær skýrslur um Sundahöfnina, annars vegar skýrslu um atvinnustarfsemi í Sundahöfn frá árinu 2018 og hins vegar samantekt um starfsemi og skipulag Sundahafnar frá árinu 2011.

Grundartangi:

Í dag er viðlegupláss hafnarbakka á Grundartanga um 760 metrar, eftir að lokið hefur verið við 120 metra lengingu hafnarbakkans.  Fyrir liggur að unnt er að lengja hafnarbakkann til vesturs um 600 metra eftir því sem umsvif hafnarinnar aukast.  Á Grundartanga  eru nú þegar skipulagðar um 90 lóðir, sem ekki hefur verið úthlutað og þar af eru 5 skipulagðar iðnaðarlóðir og fyrirtækjum þar hefur fjölgað.  Stærsta verkefnið næstu ár verður væntanlega tengt uppbygginu á landi Kataness fyrir starfsemi Silicor Materials.  Það fyrirtæki hefur áform um að hefja framleiðslu á kísil fyrir sólarrafhlöður á árinu 2018 eða 2019.  Lóð Silicor er um 31 hektari að stærð og hlutverk Faxaflóahafna sf. í því verkefni verður að leggja vegi að lóðinni og garð með viðleguaðstöðu, sem gerir fyrirtækinu kleift að losa og lesta vökva  til vinnslunnar beint inn á lóð verksmiðjunnar.  Sýra verður notuð til hreinsunar á kísilnum, en er síðan flutt út og seld til vatnshreinsistöðva í Evrópu að lokinni notkun.

Stjórn Faxaflóahafna sf. og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hafa sammælst um að til framtíðar verði horft til grænna áherslna við uppbyggingu fyrirtækja á Grundartanga.  Sú stefnumótun er í gangi auk þess sem Faxaflóahafnir sf. hafa lagt áherslu á umhverfisfrágang á svæðinu m.a. með endurheimt Katanestjarnarinnar.

Á aðal- og deiliskipulagi Grundartanga er gert ráð fyrir að þar geti risið skipaverkstöð, sem gæti þjónustað stærri skip en áður hefur verið mögulegt á Íslandi.  Hvort eða hvenær af þeim framkvæmdum verður skal ósagt látið, en aðstæður á Grundartanga gera kleift að byggja aðstöðu fyrir slíka starfsemi, verði það talið hagkvæmt.

Á Grundartanga starfa um 1000 manns að staðaldri auk verktaka og þjónustuaðila sem vinna afmörkuð verkefni fyrir fyrirtæki á staðnum og Faxaflóahafnir sf.

Hér má sjá tvær skýrslur um Grundartanga, annars vegar skýrslu um atvinnustarfsemi á Grundaratanga frá árinu 2018 og hins vegar samantekt um starfsemi og skipulag Grundartanga frá árinu 2011.

Akranes:

Við sameiningu hafna árið 2005 undir merkjum Faxaflóahafna sf. var það markmið sett að efla Akraneshöfn sem fiskihöfn.  Nú eru hugmyndir uppi um að fara í allt að 5 hektara landfyllingu sem geri HB Granda hf. kleift að reisa nýtt fiskvinnsluhús, nýja frystigeymslu og uppsjávarfrystihús.  Slíkt myndi auka verulega komur fiskiskipa í höfnina og efla höfnina í þeim anda sem stefnt hefur verið að.  Á meðfylgjandi mynd má sjá eina útfærslu á hugsanlegri landfyllingu, en HB Grandi hf., Akraneskaupstaður og Faxaflóahafnir sf. hafa rætt um hvernig standa megi að framkvæmdinni og hvaða undirbúningsvinna þarf að eiga sér stað áður en framkvæmdir hefjast.

Akranes - fylling2015

Þá er ljóst að þróun Akraneskaupstaðar á svonefndum Sementsreit mun hafa áhrif á ásýnd hafnarinnar, en takist vel til gæti sú þróunarvinna einnig leitt af sér nýja starfsemi í höfninni einkum á sviði ferðaþjónustu.

Það er markmið Faxalfóahafna sf. að Akraneshöfn eflist sem fiskihöfn og að í skjóli útgerðar og fiskvinnslu geti þróast hafsækin ferðaþjónusta með viðeigandi þjónustustarfsemi á landi.  Í Lambhúsasundi er starfsemi Skagans hf. og Þorgeirs og Ellerts ehf., en þar á sér stað framleiðsla á fiskvinnslukerfum og skipaviðgerðir.  Milli Lambhúsasunds og hafnarinnar er Breiðin, sem er að taka breytingum en þær munu vafalaust draga að sér aukinn fjölda ferðafólks.

Borgarnes:

Hafnarmannvirkið í Borgarnesi gegndi fyrir daga Borgarfjarðarbrúar mikilsverðu hlutverki.  Eftir gerð brúarinnar lögðust allar siglingar í Borgarnes af, en þar hafa nú nokkrir smábátar heimahöfn.  Vandkvæði Borgarneshafnar snúa m.a. að erfiðri innsiglingu og nú hefur hlaðist upp sandrif á siglingaleiðinni  sem gerir innsiglingu erfiða.  Á síðustu árum hafa Faxaflóahafnir sf. unnið að umhverfisbótum á hafnarsvæðinu í Brákarey og fyrirhugað er að leggja út flotbryggju, sem bætir aðstöðu þeirra báta sem þar hafa viðlegu.

FaxaportsFaxaports linkedin