Kútterinn Westward Ho kom á Akranes í gær og með kútternum blönduð áhöfn Færeyinga og Íslendinga. Koma kúttersins er með samkomulagi sem gert var og siglir kútterinn til Íslands þriðja hvert ár í tengslum við Hátíð hafsins. Westward Ho var upphaflega smíðaður árið 1884 í Grimsby en hefur í tvígang verið gerður upp. Westward Ho lagðist að nýrri flotbryggju á Akranesi og telst hún þar með tekin í notkun.
Á laugardag siglir Westward Ho til Reykjavíkur og leggst að flotbryggju í Vesturbugtinni þar sem fyrir er gólettan Etoile, sem smíðuð var árið 1932.
Það verða því virðuleg fley í Vesturbugtinni á Hátíð hafsins og gestum til sýnis.