Viðmiðunarreglur Faxaflóahafna sf.
varðandi undanþágu frá hafnsöguþjónustu.
Í reglugerð um Faxaflóahafnir sf. nr. 798 frá 2009 segir í 4. mgr. 8. greinar: „Hafnarstjóra, að fenginni umsögn yfirhafnsögumanns, er heimilt að veita skipstjóra skips, sem skylt er að lúta hafnsögu skv. þessari grein, undanþágu frá því að taka hafnsögumann um borð. Skilyrði undanþágu er mat yfirhafnsögumanns á hæfni skipstjóra til siglinga um hafnarsvæði Faxaflóahafna sf. Undanþágan gildir einungis til siglinga á það eða þau hafnarsvæði, sem viðkomandi hefur reglulega komið á. Nú hefur skipstjóri ekki gengt skipstjórnarstörfum í 2 ár og fellur undanþágan þá niður. Synjun hafnarstjóra á undanþágu getur umsækjandi borið undir hafnarstjórn.“ Til frekari skilgreiningar á skilyrðum undanþágu frá því að taka hafnsögumann um borð gilda eftirfarandi verklagsreglur:
- Skilyrði er að viðkomandi skipstjóri hafi siglt viðkomandi skipi eða sambærilegu reglulega á viðkomandi hafnarsvæði s.l. 3 ár og komið næstliðið ár a.m.k. 8 sinnum á viðkomandi hafnarsvæði og undanþágan tekur til. Það er skilyrði fyrir veitingu undanþágunnar að ekkert hafi verið athugavert við komu eða brottför skv. 1. tl.
- Undanþága nær aðeins til þeirra hafnarsvæða sem skipstjóri hefur komið reglulega til skv. 1. tl.
- Undanþágan skal bundin viðkomandi skipstjóra og ákveðnu skipi eða tegund skipa. Stjórnbúnaður skipanna skal vera fullnægjandi að mati yfirhafnsögumanns.
- Þrátt fyrir undanþágu frá því að taka hafnsögumann um borð skal skipstjóri ávallt vera í góðu talstöðvarsambandi við hafnsögumenn Faxaflóahafna sf. og hlíta í einu og öllu fyrirmælum þeirra. Verði misbrestur á þessu er heimilt að afturkalla undanþágu samkvæmt reglum þessum án sérstaks fyrirvara.
- Heimilt er að veita þeim sem áður hafa gengt hafsögustörfum hjá Faxaflóahöfnum sf. undanþágu frá því að taka um borð hafnsögumenn ef viðkomandi skipstjóri og skip uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar undanþágu.
- Hafi skipstjóri ekki gegnt skipstjórastöðu í tvö ár þá fellur undanþága samkvæmt reglum þessum niður án sérstakrar tilkynningar.
- Við sérstakar aðstæður getur hafnarstjóri veitt undanþágu frá því að taka hafnsögumann um borð.
- Erindi um undanþágu frá því að taka hafnsögumann um borð skal send skriflega á hafnarstjóra. Verði hann við beiðninni gildir hún í eitt ár í senn. Hafnarstjóri getur jafnfram ef málefnalegar ástæður eru til staðar afturkallað án sérstaks fyrirvara undanþágu frá því að hafnsögumaður sé tekinn um borð í skip.
- Við erfiðar aðstæður vegna veðurs eða sjólags getur yfirhafnsögumaður ákveðið að þrátt fyrir undanþágu frá því að taka hafnsögumann um borð skuli skipstjóri taka hafnsögumann um borð.
- Þurfi skipstjóri aðstoð dráttarbáts er honum skylt að taka hafnsögumann um borð.
- Synjun hafnarstjóra á undanþágu getur umsækjandi borið undir hafnarstjórn.
Reykjavík, 12. september 2013
Gísli Gíslason, hafnarstjóri