Það má segja að skemmtiferðaskipið Ocean Dimaond hafi komið með sumarið með sér þegar það kom til Reykjavíkur í sinni fyrstu ferð af mörgum í sumar. Skipið verður í förum í hringsiglingum um Ísland og fer auk þess einar þrjár ferðir til Grænlands. Það er íslenska fyrirtækið Iceland Pro Cruises sem hefur tekið skipið á leigu og brýtur þar með blað í sögu ferðaþjónustu á Íslandi með því að hefja rekstur skemmtiferðaskips.
Ocean Diamonds er 8,200 brúttólestir, 124 metra langt og getur tekið 207 farþega í samtals 113 káettum. Skipið var byggt í Noregi 1986 og gert upp árið 2012. Öll helstu þægindi eru um borð svo sem sundlaug og heitur pottur en áhöfnin mun einnig sjá fyrir afþreyingu af ýmsum toga. Í sumar verður áherslan í eldhúsinu á íslenska matarmenningu.
Skipið skiptir um farþega á níu daga fresti í Reykjavik og tekur þar vatn og vistir og og annað sem til þarf í næstu ferð.
Í móttöku um borð í skipinu afhenti hafnarstjóri Faxaflóahafna skipstjóra Ocean Diamond blómvönd og skjöld í tilefni af jómfrúarkomu skipsins til Reykjavíkur.