Nú hafa nýjar göngubryggjur í Vesturbugtinni við Sjóminjasafnið verið teknar í notkun, en bygging þeirra hefur átt sér stað í áföngum síðustu ár. Af því tilefni var að loknum aðalfundi Faxaflóahafna sf. boðið til samverustundar með starfsfólki Sjóminjasafnsins og bryggjurnar opnaðar með viðhöfn.
Það voru Kristín Soffía Jónsdóttir, formaður stjórnar Faxflóahafna sf. og Gísli Gíslason, hafnarstjóri sem klipptu á borða af þessu tilefni, en m.a. hélt Sigrún Magnúsdóttir, auðlinda- og umhverfisráðherra ávarp, en hún stýrði uppbyggingu Sjóminjasafnsins um árabil áður en hún settist á Alþingi. Í Vesturbugtinni eru tvær nýjar flotbryggjur sem ætlað er að nota fyrir hafsækna ferðaþjónustu en um næstu helgi á Hátíð hafsins verða góðir gestir þar við bryggju. Annars vegar kemur kútterinn Westward Ho frá Færeyjum og hins vegar verður einnig í heimsókn góletta frá franska sjóhernum, Etoil. Það verður því líf og fjör í Vesturbugtinni um næstu helgi og vonandi að sem flestir nýti sér að líta á mannvirkin, en þar má segja að þar sé ávallt blíða og skjól.