Ár 2024, föstudaginn 21. júní kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 12:00

Mætt:
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður
Hildur Björnsdóttir
Már Másson
Ragnheiður H. Magnúsdóttir
Guðmundur Ingþór Guðjónsson
Helga Harðardóttir
Páll Brynjarsson

Auk þeirra voru á fundinum Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri framkvæmdasviðs og Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri sem ritaði fundargerð.

1. Öryggi, heilsa og umhverfi

Mánaðarskýrsla öryggisstjóra lögð fram til kynningar og rædd.
• Engin skráð slys frá síðasta fundi
• Eitt meiriháttar öryggisatvik skráð og yfirfarið

2. Mánaðaryfirlit hafnarstjóra

Lagt fram og kynnt af hafnarstjóra og rætt.

3. Innkaupastefna
Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, gæða- og umhverfisstjóri kom á fundinn undir þessum lið og kynnti drög að nýrri innkaupastefnu fyrir fyrirtækið. Stjórn samþykkti stefnuna samhljóða.

4. Hafnarsamningur við Norðurál Grundartanga ehf.
Jón Garðar Jörundsson, sviðsstjóri Viðskiptasviðs og Magnús Baldursson lögmaður Faxaflóahafna komu á fundinn undir þessum lið. Kynntu þeir drög að nýjum hafnarsamningi við Norðurál Grundartanga ehf.

Stjórn samþykkti samhljóða umboð til hafnarstjóra til að undirrita samning í samræmi við þá kynningu og þau samningsdrög sem fyrir fundinum lágu.

5. Forkaupsréttarmál

Hafnarstjóri kynnti að fallið hafi verið frá forkaupsrétti eftirfarandi fasteigna með venjulegum fyrirvara um að afnot lóða falli að gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningum:
a. Erindi Arctic K 2 ehf. um sölu á Köllunarklettsvegi 2, Reykjavík. Fasta nr. 224-0828. Kaupandi Bílaréttingar og bílasprautun Sævars ehf.
b. Erindi bbrn ehf. um sölu á Fiskislóð 31, Reykjavík. Fasta nr. 250-0243. Kaupandi Ari ehf.
c. Erindi Fleins ehf. um sölu að Fiskislóð 45, Reykjavík. Fasta nr. 231-2209. Kaupendur Inga Rósa Guðmundsdóttir og Jóhann Ingi Kristjánsson.
d. Erindi FF/ ehf. um sölu á Skútuvogi 13a, Reykjavík. Fasta nr. 223-4609 og 223-4610. Kaupandi Opus Fasteignafélag ehf.

6. Skýrsla rannsóknarnefndar samgönguslysa
Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður Faxaflóahafna kom á fundinn undir þessum lið og kynnti skýrslu Rannsóknarnefndar Samgönguslysa um öryggisatvik í Sundahöfn þann 26.maí 2023 þegar skemmtiferðaskipið Norwegian Prima rak undan vestanvindi og nálgaðist grynningar við Viðey.
Sýndi Gísli jafnframt myndband sem rannsóknarnefndin útbjó og svaraði spurningum fundarmanna.

Upplýstu yfirhafnsögumaður og hafnarstjóri að fyrstu viðbrögð Faxaflóahafna fólust í því að lækka veðurviðmið fyrir heimild til siglinga í höfnum Faxaflóahafna og að auka þjálfun hafnsögumanna og skipstjóra dráttabáta.

Rannsóknarnefndin beinir þeirri úrbótatillögu til Faxaflóahafna að samskipti dráttarbátaskipstjóra og hafnsögumanns verði á ensku í tilfelli erlendra skipa. Hafnarstjóri upplýsti að þessa tillögu þurfi að rýna í vandlega og helst í samstarfi við aðrar hafnir landsins.

Jafnframt upplýsti hafnarstjóri að hann hafi á vettvangi Hafnarsambands Íslands óskað eftir því að Siglingaráð hlutist til um heildarúttekt á öryggismálum skemmtiferðaskipa við strendur landsins, sambærilegri þeirri sem Norðmenn gerðu fyrir tveimur árum. Sú beiðni hefur verið til athugunar í innviðaráðuneytinu.

Stjórn samþykkti eftirfarandi bókun samhljóða:

„Stjórn þakkar góða yfirferð yfir skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa, og þakkar jafnframt starfsfólki snör og rétt viðbrögð við mjög krefjandi aðstæður. Faxaflóahafnir hafa nú þegar endurskoðað þjálfun hafnsögusögumanna og eru að endurskoða verklagsreglur hvað varðar veðurviðmið og aðstæður.
Öryggismál eru eitt helsta stefnumál Faxaflóahafna og leggur stjórn sérstaka áherslu á siglingayfirvöld láti framkvæma öryggis- og áhættumat fyrir umferð skemmtiferðaskipa um allt land, enda hefur stærð þeirra skipa vaxið töluvert á undanförnum árum.“

7. Samkomulag við Sjávarklasann um framtíðarhúsnæði
Ólafur Melsted, skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna kom á fundinn undir þessum lið og kynnti hugmyndir um stækkun á aðstöðu fyrir Sjávarklasann, en hann hefur verið starfandi í efri hæð Bakkaskemmu við Grandagarð í um 13 ár.

Hafnarstjóri og Reykjavíkurborg hyggjast undirrita viljayfirlýsingu við Sjávarklasann sem felur í sér skoðun á nýtingu húsnæðis í eigu Faxaflóahafna samhliða skoðun á nýbyggingu í nágrenni núverandi húsnæðis.

8. stefnumótun
Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, gæða- og umhverfisstjóri Faxaflóahafna kom ásamt Ásdísi Sigurbergsdóttur og Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur frá ráðgjafarfyrirtækinu Aton á fundinn undir þessum lið. Kynntu þær Ásdís og Gyða stöðu stefnumótunarvinnu félagsins og svöruðu spurningum fundarmanna.

9. Önnur mál
Engin önnur mál

Fundi slitið 14:35

FaxaportsFaxaports linkedin