Ár 2017, föstudaginn 17. nóvember kom stjórn Faxaflóahafna sf. saman til fundar í fundarherbergi hafnarstjórnar í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu og hófst fundurinn kl. 09:00.
Mættir:

Kristín Soffía Jónsdóttir
Þórlaug Ágústsdóttir
Einar Brandsson
Björgvin Helgason
Magnús Smári Snorrason
Marta Guðjónsdóttir

Varafulltrúar:

Elín Oddný Sigurðardóttir
Elsa Hrafnhildur Yeoman

Áheyrnarfulltrúar:

Þorsteinn F. Friðbjörnsson
Ingibjörg Valdimarsdóttir

Auk þess sátu fundinn: Guðmundur Eiríksson, forstöðumaður tæknideildar, Hildur Gunnlaugsdóttir, skipulagsfulltrúi, Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri og Gísli Gíslason, hafnarstjóri, sem jafnframt ritar fundargerð.

  1. Eitt hundrað ár frá verklokum byggingar Gömlu hafnarinnar í Reykjavík þann 16. nóvember 1917.

Þann 16. nóvember árið 1917 voru formleg verklok framkvæmda við byggingu Gömlu hafnarinnar í Reykjavík, sem staðið höfðu frá árinu 1913.  Hafnarsjóður hafði verið stofnaður í Reykjavík árið 1856 og í kjölfarið fylgdu umræður og tillögur að gerð hafnar í Reykjavík, sem þó varð ekki af fyrr en á fyrstu árum nýrrar aldar.  Áhrif Gömlu hafnarinnar á atvinnulíf og byggðaþróun í Reykjavík voru strax mikil og er svo enn þó svo að breytingar hafi átt sér stað m.a. með byggingu Sundahafnar og síðar sameiningu hafna við Faxaflóa undir merkjum Faxaflóahafna sf.

Reykjavíkurhöfn og síðar Faxaflóahafnir sf. hafa í gegnum tíðina minnst þessa merkilega athafna- og atvinnulífs við höfnina, sem haft hefur mikil áhrif á samfélagið á þeim 100 árum sem liðin eru frá verklokum framkvæmda við Gömlu höfnina og þróun hafnarsvæða Faxaflóahafna sf.  Frá stofnun Sjóminjasafnsins í Reykjavík hefur höfnin lagt safninu ómetanlegt lið til þess að halda á lofti þeirri merkilegu sögu mannlífs og atvinnulífs, sem mikilvægt er að varðveita og koma á framfæri.  Nú vinnur Sjóminjasafnið í Reykjavík að gerð nýrrar sýningar í húsnæði safnsins að Grandagarði og nýtur til þess stuðnings borgar og fyrirtækja.  Í tilefni þess áfanga sem nú er fagnað í sögu hafnarinnar og verkefnis Sjóminjasafnsins samþykkir stjórn Faxaflóahafna sf. að styrkja safnið um 7,5 mkr.

  1. Verbúðirnar við Geirsgötu.

Hafnarstjórn samþykkir að fela hafnarstjóra að leggja fram tillögu á næsta fundi stjórnar hvernig standa megi að friðun verbúðanna við Geirsgötu þar sem miðað verði við friðun á þeim reit sem húsin standa á eða ytra útliti húsanna.

  1. Skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar dags. í sept. 2017 ásamt bréfi innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar dags. 3.10.2017 og umsögn Endurskoðunarnefndar dags. 29.9.2017. Ábendingar hafnarstjóra dags. 13.9.2017 ásamt fylgigögnum.

Gerð var grein fyrir helstu atriðum skýrslunnar.  Samþykkt að taka efni skýrslunnar til frekari umfjöllunar á starfsdegi stjórnar í byrjun næsta árs.

  1. Bréf endurskoðunarnefndar dags. 10.10. 2017 þar sem óskað er eftir viðbrögðum við ábendingum ytri endurskoðenda. Svarbréf hafnarstjóra dags. 17.10.2017.

Lagt fram.

  1. Drög að samningi Faxaflóahafna sf. og Reykjavíkurborgar um sölu lands í Sævarhöfða 33, Reykjavík ásamt fylgigögnum. Samantekt Magnúsar Baldurssonar hrl. dags. 15.11.2017 varðandi fyrirliggjandi samninga.

Hafnarstjóri gerði grein fyrir fyrirliggjandi drögum að samningi við Reykjavíkurborg.  Samningurinn samþykktur og hafnarstjóra heimilað að undirrita hann.  Hjá sátu EB og MG.

MG leggur fram eftirfarandi bókun:   Reykjavíkurborg þrýstir á að fá keypt land í eigu Faxaflóhafna fyrir verð sem enga stoð hefur. Að lágmarki hefði átt að fá mat   fasteignasala á andvirði landsins ásamt upplýsingum um það hvert söluverðmæti byggingarréttarins muni verða þegar landfyllingum er lokið og deiliskipulag hefur verið samþykkt. Æskilegt hefði verið að láta á það reyna að selja landið á frjálsum markaði.

Engin ástæða er til þess að ganga frá sölunni fyrr en fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir þannig að stjórn geti staðið undir þeirri skyldu sinni að taka upplýsta ákvörðun. 

  1. Niðurstaða dómnefndar samkeppni um listaverk til að minnast hlutar kvenna í starfsemi hafnarinnar ásamt tillögum sem dómnefndin fjallaði um.

Hafnarstjórn færir þeim sem þátt tóku í samkeppninni bestu þakkir fyrir framlag sitt svo og þeirri nefnd sem valdi þau fimm verk sem komu til sérstakrar skoðunar.  Einnig þakkar hafnarstjórn dómnefnd verkefnisins og þeim starfsmönnum sem unnu að undirbúningi og framkvæmd þess. 

Hafnarstjórn samþykkir að listaverkið Tíðir verði sett upp í Vesturbugt.  Hafnarstjóra er falið að vinna að undirbúningi verkefnisins og leggja fram áætlun um kostnað við verkefnið og heppilegan framkvæmdatíma m.a. með hliðsjón af öðrum framkvæmdum á Mýrargötusvæðinu.

  1. Rekstrar- og framkvæmdayfirlit fyrir janúar til og með september 2017 ásamt greinargerð fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Hafnarstjóri gerði grein fyrir helstu fjárhagsstærðum yfirlitsins.

  1. Skipulagsmál:
    Erindi Klettaskjóls ehf. dags. 5.10. 2017 þar sem óskað er eftir sameiningu lóðanna nr. 3 og 5 við Klettagarða og breytingu á nýtingarhlutfalli. Minnisblað skipulagsfulltrúa dags. 8.11.2017.

Hafnarstjórn getur fallist á breytingu á nýtingarhlutfalli lóðanna 3 og 5 við Klettagarða úr 0,5 í 0,6.  Athygli er vakin á að breytingin getur haft í för með sér viðbótar byggingarréttargjald og að gera þarf nýjan lóðaleigusamning við lóðarhafa.  Umsækjanda er því af hálfu hafnarstjórnar heimilt að óska formlega eftir breytingunni til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Bréf Geirsgötu 11 ehf. dags. 14.11. 2017 varðandi deiliskipulag Miðbakka þar sem óskað er eftir samstarfi um þróun svæðisins.

Hafnarstjóra og skipulagsfulltrúa falið að ræða við bréfritara.

  1. Fundargerð frá málþingi Faxaflóahafna sf. með notendum þann 24. október 2017.

Lögð fram.

  1. Áætlun Vatnsveitufélags Hvalfjarðarsveitar sf árin 2017-2027.

Hafnarstjórn samþykkir áætlun vatnsveitufélagsins fyrir sitt leyti.

  1. Beiðni kórs Akraneskirkju dags. 2.11.2017 um styrk vegna tónleikahalds.

Samþykkt að veita styrk að fjárhæð kr. 200.000.

  1. Forkaupsréttarmál

Erindi dags. 27. október 2017, varðandi beiðni um að fallið verði frá forkaupsrétti að eignarhluta að Fiskislóð 45 fastanr. 228-4619. Kaupandi Jón Gunnar Davidsson kt. 100745-7989. Seljandi Guðbjörg Sigurðardóttir kt. 060558-7879

Hafnarstjórn staðfestir að fallið sé frá forkaupsrétti enda uppfylli starfsemin ákvæði lóðarleigusamnings og deiliskipulags.

Fleira ekki gert
Fundi slitið kl. 11:10

FaxaportsFaxaports linkedin