Fleiri skiptifarþegar um hafnir Faxaflóahafna

Skemmtiferðaskipavertíð Faxaflóahafna 2024 hófst þann 21. mars með komu skipsins Ambition, sem lagðist að Skarfabakka. Vertíðinni lauk þann 12. október þegar hið umhverfisvæna leiðangursskip Le Commandant Charcot sigldi úr höfn. Í heildina komu 90 skemmtiferðaskip til Reykjavíkur í alls 259 skipakomu. Heildar farþegatölur skemmtiferðaskipanna á árinu voru 321.966 farþegar og af þeim voru 156.454 skiptifarþegar. Skiptifarþegar eru þeir farþegar sem hefja eða enda ferð sína í höfn og fljúga síðan til eða frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll. Til samanburðar þá voru 148.615 skiptifarþegar sem fóru um hafnir Faxaflóahafna í fyrra, sem þýðir að það hefur orðið aukning um 5% í fjölda skiptifarþega. Heildarhlutfall skiptifarþega af öllum farþegum skemmtiferðaskipa er svipað og á árinu 2023 eða rétt tæplega 50%.

Fækkun spáð fyrir 2025

Samkvæmt bókunarstöðu skemmtiferðaskipa fyrir árið 2025 er gert ráð fyrir 238 skipakomum og um 300 þúsund farþega. Það er helst fækkun í komum leiðangursskipa sem fara úr 127 komum í 107 komur sem skýra að einhverju leiti þessa fækkun. Heildarfjöldi farþega er áætlaður 300.225 fyrir árið 2025 og þar af verði 160.633 skiptifarþegar eða um 53,5% af öllum farþegum.

 

FaxaportsFaxaports linkedin