Föstudaginn 29. janúar afhenti Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra sérstakar viðurkenningar til fyrirtækja innan Íslenska sjávarklasans sem náð hafa eftirtektarverðum árangri með samstarfi. Með þessum viðurkenningum vill Íslenski sjávarklasinn minna á þau tækifæri sem felast í auknu klasasamstarfi.   Að þessu sinni fengu þrjú samstarfsverkefni viðurkenningu. Verkefnin lúta að samstarfi fjárfesta og nýsköpunarfyrirtækis, rannsóknarsamstarfs og stefnumörkunar.  
Viðurkenning fyrir samstarf um flutninga
Fyrirtæki í ýmiskonar flutningastarfsemi á Íslandi hafa starfað saman í hóp innan klasans sem hefur haft það að markmiði að efla flutningakerfi landsins og koma til leiðar langtímastefnumótun og upplýstari umræðu um mikilvægi skilvirkra flutninga. Afrakstur þessa starfs er meðal annars ítarleg stefnumörkun um Flutningalandið Ísland til ársins 2030 og ráðstefna um málefni flutninga sem haldin er ár hvert. Ráðstefnan er mikilvægur vettvangur fyrir þessi fyrirtæki til að koma saman og ræða tækifæri og áskoranir framtíðar svo bæta megi samkeppnishæfni Íslands á sviði flutninga, jafn innanlands sem og á sviði utanríkisviðskipta. Að hópnum standa Icelandair Cargo, Eimskip, TVG Zimsen, Ekran, Kadeco, Lex, Stálsmiðjan, Íslandsbanki, Refskegg, Isavia, Faxaflóahafnir, Hafnarfjarðarhöfn og Akureyrarhöfn.  
Viðurkenning fyrir samstarf fjárfesta og frumkvöðla
Marinvest, Frumtak og Controlant hljóta viðurkenningu fyrir samstarf frumkvöðla og fjárfesta innan klasans. Þessir þrír aðilar hafa átt í samstarfi þar sem fjárfestar í Marinvest og Frumtaki hafa komið að sem hluthafar í frumkvöðlafyrirtækinu Controlant. Controlant er nýsköpunarfyrirtæki sem býður tækni til eftirlits með matvælum og lyfjum. Náið samstarf þessara aðila hefur eflt Controlant en einnig stuðlað að aukinni þekkingu klasans og fjárfesta á fjárfestingum í frumkvöðlastarfsemi.  
Viðurkenning fyrir rannsóknarsamstarf
Klasaverkefni geta teygt sig í ýmsar áttir og samstarf Kerecis og Rannsóknarmiðstöðvar bandaríska sjóhersins er gott dæmi um það. Þessir aðilar hittust fyrir tilstuðlan Íslenska sjávarklasans og bandaríska sendiráðsins á Íslandi. Afrakstur þess varð samningur á milli þessara aðila um frekari þróun fiskroðs til meðhöndlunar á bráðasárum með það að markmiði að fækka dauðsföllum vegna slíkra áverka. Verkefnið er fjármagnað af Rannsóknarmiðstöð bandaríska sjóhersins.
IMG_0573

Viðurkenningarnar voru afhentar í Húsi sjávarklasans föstudaginn 29. janúar

FaxaportsFaxaports linkedin