Þann 17. maí 2018 var viljayfirlýsing samþykkt af borgarráði um kaup Reykjavíkurborgar á Hafnarhúsi Faxaflóahafna, Tryggvagötu 17. Um er að ræða sölu á 61 % eignarhlut Faxaflóahafna. Í kjölfarið fór fram mat óháðra aðila á verðmæti hússins og á grundvelli þess var samið um kaupverðið 2.184.800.000 kr. sem er jafnt fasteignamati umrædds hluta hússins. Hafnarhúsið var teiknað af Sigurði Guðmundssyni, arkitekt, í samvinnu við Þórarin Kristjánsson þáverandi hafnarstjóra á árinum 1933-1939. Húsið sinnti því mikilvæga hlutverki að vera skrifstofu- og vörugeymsluhús Reykjavíkurhafnar og var ein stærsta bygging landsins. Stefnt er að því í framtíðinni að Hafnarhúsið verði miðstöð myndlistar í höfuðborginni. Við hliðina á Hafnarhúsinu er svo fyrirhugað að starfsemi Listaháskóla Íslands verði komið fyrir í Tollhúsinu.
Í dag, mánudaginn 13. desember, undirrituðu Magnús Þór Ásmundsson hafnarstjóri Faxaflóahafna, Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarkona (fulltrúi Unu Dóru Copley, dóttur Nínu Tryggvadóttur listakonu) og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, samning um kaup borgarinnar á húsnæði Faxaflóahafna í Hafnarhúsinu. Með samningnum mun Reykjavíkurborg eignast Hafnarhúsið í heild sinni en hluti hússins mun hýsa nýtt safn Nínu Tryggvadóttur. Undirritunin fór fram í Listasafni Reykjavíkur, klukkan 13.15.
Faxaflóahafnir munu byggja nýtt húsnæði undir starfsemi sína í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að það verkefni geti tekið þrjú ár en fram að því að ný aðstaða verði tekin í notkun mun fyrirtækið leigja núverandi aðstöðu í Hafnarhúsinu skv. samkomulagi við Reykjavíkurborg. „Það verða tímamót þegar Faxaflóahafnir kveðja þetta merkilega hús en á sama tíma tækifæri til að færa alla starfsemi fyrirtækisins í Reykjavík undir eitt þak. Staðarval er ekki endanlega ákveðið en í nýrri aðstöðu verður tækifæri til að bæta vinnuaðstæður starfsfólks og til að færa aðstöðu dráttarbáta nær Sundahöfn og minnka með því kolefnisfótspor fyrirtækisins.“, sagði Magnús Þór við undirskrift samningsins í dag.