Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn í dag til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu, umboðsmönnum og öðrum hagaðilum, skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa.
Húsfyllir var í aðalstöðvum Faxaflóahafna að Tryggvagötu 17 og ljóst vilji hlutaðeigandi til að láta þessa mikilvægu grein ferðaþjónustunnar ganga sem best upp er mikill.
Í sumar verður nokkuð þröngt um þjónustu við skipin við Skarfabakka og Korngarði þar sem bygging farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna er þegar hafin en sú framkvæmd mun taka um tvö ár í heild sinni. Í ár er gert ráð fyrir 308.584 farþegum sem eru örlítið fleiri en 2023 en þeir koma í færri skipum en í fyrra. Áætlanir gera ráð fyrir að skiptifarþegar verði 161.540 eða um 52% en í fyrra voru skiptifarþegar 48%.
Mikilvægi farþegamiðstöðvarinnar verður seint ofmetið, þótt óþægindi séu óhjákvæmileg á meðan á framkvæmdum stendur, en mikilvægi skiptifarþega fyrir ferðaþjónustu landsins er gríðarlegt þar sem þeir nýta sér flug annan ferðalegginn og kaupa sér gistingu og þjónustu. Samkvæmt tölum frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála frá því í fyrra gista 60% þeirra í að meðaltali 2,15 nætur í landi og nýta sér afþreyingu og aðra þjónustu í landinu á þeim tíma.
Þá hefur einnig orðið sú breyting frá fyrra ári að tekist hefur að „fletja kúrfuna“ í stærstu skipakomunum nokkuð út. Þannig er aðeins einn dagur þar sem heildarfarþegafjöldi fer í 9,231 farþega í Faxaflóahöfnum en aðrir stórir dagar eru á bilinu sex til sjö þúsund gesta dagar. Til samanburðar má nefna að nýlega hefur verið ákveðið þak á fjölda farþega á Ísafirði fyrir komandi bókanir og er þar miðað við hámark 5 til 7 þúsund farþega. Í fyrra voru nokkrir dagar hjá Faxaflóahöfnum með tíu til ellefu þúsund farþegum. Það hefur því tekist vel að draga úr álagi en það má jafnframt taka fram að allir þessir dagar hafi gengið smurt fyrir sig í fyrra. Markmiðið er að halda áfram á núverandi braut, auka skilvirkni og reyna að jafna umferðina sem mest.
Þá kom einnig fram að hjá ónefndri útgerð á Seatrade ráðstefnunni sem er nýlokið í Miami hefðu Faxaflóahafnir fengið næst bestu einkunnina fyrir utanumhald með farþegaskiptum. Þar munar mikið um undirbúning og væntingar farþega en með nýrri farþegamiðstöð mun Reykjavík verða fyrsta flokks komustaður skipafarþega hvaðanæva úr heiminum sem skiptir miklu. Öryggi hefur verið í fyrirrúmi en það mun reynast mun auðveldara að tryggja öryggi með nýrri farþegamiðstöð og það mun skila sér í hagkvæmari rekstri og meiri ánægju viðskiptavina. Sem ein af gáttunum inn í landið ásamt fluginu er mikilvægi öryggismála gríðarlegt en skemmtiferðaskip leggja mikla áherslu á öryggisgæslu og landamæraeftirlit og notast jafnvel við myndaskanna þegar farþegar fara í land eða um borð.
Allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi aðstöðu og þjónustu Faxaflóahafna í tengslum við komur skemmtiferðaskipa má nálgast hér: https://www.faxafloahafnir.is/adstada-og-frodleikur/