Undanfarin ár hafa Faxaflóahafnir sf. tilnefnt fyrirtæki á hafnarsvæði sínu, þ.e. Akranes, Bogarnes, Grundartanga og Reykjavík, til umhverfisverðlauna fyrirtækisins. Verðlaunaafhendingin fer fram á sama tíma og ársskýrsla fyrirtækisins er opinberuð fyrir almenningi.
Fjörusteinninn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna hafa verið veitt frá árinu 2007 og verða nú veitt í 12 skipti. Venjan hefur verið að veita verðlaunin fyrirtækjum sem starfa á hafnarsvæðunum og sýnt hafa fram á framsækni í umhverfismálum og verið til fyrirmyndar hvað varðar frágang á lóðum og snyrtilegt umhverfi. Eftirfarandi aðilar hafa hlotið Fjörusteininn frá upphafi:
2007 Eimskipafélag Íslands
2008 Nathan og Olsen hf
2009 Egilsson ehf
2010 Jón Ásbjörnsson og Fiskkaup ehf
2011 Lýsi hf
2012 Samskip hf
2013 Elding – hvalaskoðun ehf
2014 HB Grandi hf
2015 Íslenski Sjávarklasinn ehf
2016 Special Tours
2017 Landhelgisgæsla Íslands
Fjörusteinninn umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2018 hlýtur:
Hafið öndvegissetur.
Það var Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, stjórnarformaður Hafsins öndvegisseturs, sem tók við verðlaununum fyrir hönd félagins. Faxaflóahafnir sf. óskar Hafinu öndvegissetur innilega til hamingju með Fjörusteinsverðlaunin árið 2018!
Starfsemi Hafsins á rætur að rekja til samstarfs fyrirtækja sem vilja þróa og nýta græna tækni, til verndar hafinu. Markmið félagsins er að skapa samstarfsgrundvöll fyrir fyrirtæki, opinbera aðila og rannsóknarstofnanir til þróunar á tækni, löggjöf og hverju því sem stuðlar að verndun og sjálfbærri umgengni um hafið.
Hafið leitast við að auka almennan skilning og þekkingu á hafinu og mikilvægi þess. Félagið stendur fyrir samstarfsverkefnum og leitar styrkja til þeirra og starfseminnar í heild sinni, bæði innanlands og erlendis. Hafið (þá Oceana) var stofnsett á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu, þann 31. október 2014, af 14 fyrirtækjum, stofnunum og samtökum fyrirtækja, sem láta sig málefni hafsins varða. Hafið er samstarfsvettvangur aðila sem nýta vilja sameinaðan styrk til verndunar hafsins.
Auk þess að vera viðurkenning á góðri frammistöðu í umhverfismálum er Fjörusteinninn jafnframt hugsaður sem hvatning fyrir þá sem hann hljóta til áframhaldandi góðra verka og er von Faxaflóahafna að þessi viðurkenning verði hvatning til Hafsins öndvegisseturs um áframhaldandi starf á þessu mikilvæga sviði. Örar tækniframfarir eiga sér stað um þessar mundir á sviði orkumála ekki síst hvað varðar skip og haftengda starfsemi og því er sérlega mikilvægt að ýta undir enn frekari rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála og skapa vettvang fyrir samráð og samskipti mismunandi hagsmunaaðila og fræðimanna á þessu sviði.