Fjörusteinninn umhverfisverðlaun Faxaflóahafna hafa verið veitt frá árinu 2007 og eru nú veitt í 15 skipti. Venjan hefur verið að veita verðlaunin fyrirtækjum sem starfa á hafnarsvæðunum og sýnt hafa fram á framsækni í umhverfismálum og verið til fyrirmyndar hvað varðar frágang á lóðum og snyrtilegt umhverfi.
Eftirfarandi aðilar hafa hlotið Fjörusteininn frá upphafi:
2007 Eimskipafélag Íslands
2008 Nathan og Olsen hf
2009 Egilsson ehf
2010 Jón Ásbjörnsson og Fiskkaup ehf
2011 Lýsi hf
2012 Samskip hf
2013 Elding – hvalaskoðun ehf
2014 HB Grandi hf
2015 Íslenski Sjávarklasinn ehf
2016 Special Tours
2017 Landhelgisgæsla Íslands
2018 Hafið öndvegissetur
2019 Hafrannsóknastofnun Íslands
2020 Harpa
Á aðalfundi Faxaflóahafna sf. var að vanda veitt umhverfisviðurkenning og í ár hlýtur Krónan fjörustein Faxaflóahafna.
Krónan hefur undanfarin ár markvisst unnið í verkefnum til að draga úr umhverfisáhrifum í starfi fyrirtækisins. Krónan hefur verið með verslun á Granda síðan árið 2007 og er til fyrirmyndar á svæðinu.
Krónan hefur staðið fyrir metnaðarfullum verkefnum í umhverfismálum og frá árinu 2015 tekið stór skref í umhverfismálum og matarsóun. Meðal þeirra verkefna sem þau hafa farið í er að hætta notkun plastburðarpoka, minnkað notkun plast umbúða, verið í samstarf um endurnýtingu plast sem fellur til við reksturinn, minnkað notkun á pappakössum og pappír, sett upp móttöku á umbúðum fyrir viðskiptavini, fengið svansvottun á allar verslanir Krónunnar og minnkað matarsóun.
Þess má geta að Krónan hefur lagt metnað sinn í að hlusta á hugmyndir sinna starfsmanna og viðskiptavina í umhverfismálum og hrint mörgum þeirra í framkvæmd.
Auk þess að vera viðurkenning á góðri frammistöðu í umhverfismálum er Fjörusteinninn jafnframt hugsaður sem hvatning fyrir þá sem hann hljóta til áframhaldandi góðra verka og er von Faxaflóahafna að þessi viðurkenning verði hvatning fyrir Krónuna um áframhaldandi starf á þessu mikilvæga sviði.
„Áhersla á umhverfismál er lykil þáttur í starfi Krónunnar og erum við því einstaklega stolt og þakklát fyrir þessa viðurkenningu Faxaflóarhafna í umhverfismálum: Fjörusteininn. Við þökkum þann árangur sem við höfum náð í umhverfismálum einlægum áhuga viðskiptavina okkar og starfsfólks sem við eigum í öflugu samtali við dag hvern. Samtal sem hefur skilað sér í þeim fjölmörgu verkefnum og aðgerðum sem hafa að markmiði að minnka umhverfisáhrif Krónunnar. Á þann hátt byggjum við saman upp grænni framtíð. Okkar bestu þakkir til Faxaflóahafna.“
Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdarstjóri Krónunnar.