Uppbygging að umhverfisstjórnunarkerfi Faxaflóahafna sf. miðar vel áfram og er stefnt að því að fyrirtækið geti verðið með vottað umhverfisstjórnunarkerfi undir lok árs, ef allt gengur samkvæmt plönum. Þann 3. apríl s.l. fékk fyrirtækið úttekaraðilann BSI til að framkvæma skjalaúttekt á umhverfisstjórnunarkerfinu. BSI er leiðandi aðili í faggildri vottun á stjórnkerfum samkvæmt ISO stöðlum og öðrum alþjóðlega viðurkenndum stöðlum. Hjá BSI starfa yfir 2.500 starfsmenn með starfsemi í 150 löndum. Nokkrar athugasemdir komu á umhverfisstjórnunarkerfið en verið er að vinna hörðum höndum að úrbótum. Í lok ágúst munu Faxaflóahafnir sf. fá sína aðra úttekt frá BSI og vonast fyrirtækið til þess að sú úttekt muni færa okkur nær þeim markmiðum sem við höfum sett okkur.
Hafnarstjóri Faxaflóahafna sf., Gísli Gíslason, hefur skipað umhverfisráð fyrir hönd fyrirtækisins og hóf það störf í dag. Í því ráði sitja eftirfarandi aðilar: Erna Kristjánsdóttir, Gísli Gíslason, Helgi Laxdal og Hildur Gunnlaugsdóttir. Umhverfisráð mun sinna því hlutverki að vera eftirlitsaðili með umhverfisstjórnunarkerfinu, þ.e. að passa upp á að fyrirtækið uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þess af ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum.
Hafnarstjóri hefur einnig tilnefnt sjö starfsmenn innan fyrirtækisins sem geta undirbúið úttektir með gerð gátlista, framkvæmt úttektir og lokið úrvinnslu vegna þeirra. Þeir starfsmenn sem voru tilnefndir í þetta starf voru: Andrés Ásmundsson, Erna Kristjánsdóttir, Gunnbjörn Marinósson, Jón Guðmundsson, Hermann Bridde, Hildur Gunnlaugsdóttir, Sigurjón Ásgeirsson. Það voru þeir Hermann Bridde og Sigurjón Ásgeirsson sem fengu þann heiður að fá að taka fyrstu innri úttekt á umhverfisstjórnunarkerfinu, undir leiðsögn Michele Rebora frá fyrirtækinu 7.is.