Í storminum sem gekk yfir í nótt varð nokkuð tjón á bátum og mannvirkjum í Gömlu höfninni í Reykjavík, enda mikil ókyrrð í höfninni eins og mynd Eggerts Jóhannessonar fyrir Morgunblaðið sýnir glöggt. Tveir smábátar sukku í Suðurbugtinni, Sæmundur fróði og annar smærri bátur og hafa verið gerðar ráðstafanir til að ná þeim upp. Það mun þó ekki verða gert fyrr en lægir frekar. Þá losnaði einn bátur frá flotbryggjunni í Suðurbugt, en betur fór en á horfðist og tókst eiganda hans að koma honum að bryggju aftur. Festingar á bryggjum í Suðurbugt og „brimbrjót“ við Ægisgarð skemmdust svo og „fingur“ á flotbryggjunni í Suðurbugt og verður hugað nánar að ástandi þar þegar vind hægir frekar. Í Norðurbugt losnaði einn bátur, sem tókst að binda aftur og í Austurbugt urðu skemmdir á festingum á flotbryggju.
Í Sundahöfn, á Grundartanga og á Akranesi blés hressilega eins og alls staðar á landinu – en engin vandræði urðu á þeim stöðum utan að sjór gekk yfir bryggjur á Grundartanga. Ekkert skip var við bryggju á Grundartanga. Jólatréið á Miðbakka stóð af sér veðrið – en ljósum fækkaði á tréinu eftir því sem leið á nóttina. Þegar birtir verður ástandið skoðað betur, en ljóst að nokkuð tjón hefur orðið af veðurhamnum.
Vindur verður áfram snarpur í dag og fram eftir kvöldi þannig að eigendur báta eru beðnir um að halda vöku sinni og tryggja landfestar sem kostur er og færa báta sína eftir því sem efni standa til. Sími hafnsögumanna er 5258930 eða 6608930.