Faxaflóahafnir, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Veitur, Samskip og Eimskip undirrituðu í dag viljayfirlýsingar um að taka í notkun háspennibúnað fyrir flutningaskip við Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík. Búnaðurinn mun draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og staðbundinni loftmengun frá starfsemi hafnarsvæða í Reykjavík. Um er að ræða fyrsta áfanga í því verkefni að tryggja raftengingar fyrir stærri skip í höfnum á Íslandi. Sundahöfn er megin gátt flutninga til og frá landinu og í ljósi þess að siglingar eru grundvallar þáttur í efnahag landsins þá er einnig mikilvægt að allir flutningar með vörur, hráefni, afurðir og fólk standist bestu viðmið á sviði umhverfismála. Viljayfirlýsingu vegna Vogabakka má sjá HÉR og vegna Sundabakka HÉR.
Áætlað er að rafvæðingin í þessum áfanga komi til með að draga úr bruna á yfir 660 þúsund lítrum af olíu og draga þannig úr losun koldíoxíðs um 9.589 tonn eða um 20% af núverandi losun á starfssvæði Faxaflóahafna.
Faxaflóahafnir, Veitur og ríkið leggja til 100 m.kr. hvert um sig í þennan fyrsta áfanga en ef allt gengur að óskum munu flutningaskip Eimskipa og Samskipa geta tengst landrafmagni á næsta ári. Verkefnið er í samræmi við stefnu Íslands í loftslagsmálum og í samræmi við Loftslagsstefnur Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna.
Landtenging skipa við rafmagn er mikilvægur þáttur í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæði við hafnir. Á síðustu árum hafa möguleikar á því að tengja stærri skip landrafmagni verið kannaðir ítarlega og nú er fyrsta skrefið stigið með undirritun viljayfirlýsingar um tengingu skipa í Sundahöfn.
Faxaflóahafnir hafa um áratuga skeið boðið landtengingar til báta og minni skipa, en þetta verkefni markar þau tímamót að hafin er annar áfangi uppbyggingu landtenginga sem felur í sér háspennufæðingu til stærri skipa. Á næstu árum áforma Faxaflóahafnir að hefja þriðja áfangann sem felur í sér landrafmagn til skemmtiferðaskipa, en bygging dreifisstöðvar Veitna við Sægarða er forsenda þess verkefnis.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra: „Við erum að stíga stór skref í loftslagsmálum núna með aðkomu ríkisins að rafvæðingu tíu hafna á Íslandi í ár. Verkefnið við Sundabakka og Vogabakka í Reykjavík er frábært samstarfsverkefni og mun ekki bara draga úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur líka bæta loftgæði í borginni. Þetta er gleðidagur. “
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri: „Þetta er mjög stór dagur í loftslagsmálum, ekki bara í Reykjavík heldur fyrir landið allt. Rafvæðing hafna er hluti af bæði loftslagsáætlun stjórnvalda og borgarinnar um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda þannig að þessi yfirlýsing sem við undirrituðum í dag er vegvísir að enn grænni borg. Nú fer af stað vinna við að gera þetta að veruleika og við vonumst til að geta tengt fyrstu flutningaskipin næsta sumar sem mun draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda hjá skipafélögunum en ekki síður bæta loftgæðin í kringum hafnirnar. Það hefur verið mín skoðun að við ættum öll að vera að nota þennan tíma til að skipuleggja grænt plan í efnahagsmálum til þess að draga úr útblæstri en ekki síður til að skapa landinu nauðsynlegt samkeppnisforskot í græna hagkerfinu.“
Þá var á fundi stjórnar Faxaflóahafna sf. lögð fram skýrsla starfshóps um um rafvæðingu hafna og landtengingu í höfnum Faxaflóahafna sf. en skýrsluna má sjá HÉR.