Hátíð hafsins í Reykjavík verður nú haldin helgina 1. – 2. júní 2019 og verður hún með allra glæsilegasta móti. Að hátíðinni standa Faxaflóahafnir, Sjómannadagsráð og HB Grandi en þessir aðilar hafa gert samning um að standa veglega að baki hennar að þessu sinni. Hátíðin samanstendur af tveimur hátíðardögum, þ.e. Hafnardeginum sem er á laugardeginum og Sjómannadeginum sem er á sunnudeginum og hefur verið haldin sem slík síðan árið 2002. Hátíð hafsins hefur náð að vaxa og dafna undanfarin ár og er nú orðin ein að stærri hátíðum Reykjavíkurborgar en rúmlega 40.000 manns lögðu leið sína niður að höfninni í fyrrasumar.
Til að annast Hátíð hafsins hafa bakhjarlar undirritað samning við viðburðafyrirtækið Concept Events en eigandi þess, Dagmar Haraldsdóttir, hefur séð um framkvæmd hennar frá árinu 2013.
Dagmar Haraldsdóttir, framkæmdarstýra Hátíð hafsins fagnar þessum samning sem mun óneitanlega gefa aukið svigrúm til að framkvæma og hanna enn betri hátíð. Hátíðarsvæðið nær frá Hörpu, um Gömlu höfnina, út á Grandagarð og að HB Granda. Útisvið á Grandagarði verður með skipulögðum uppákomum á laugardag og sunnudag og hjá HB Granda á sunnudag, Sjómannadaginn. Það verður að venju mikið um að vera báða dagana. Meðal annars mætir Ronja Ræningjadóttir á svið, Harmonikkufélag Reykjavíkur, Hreimur og Matti Matt og Babies Flokkurinn spila og skemmta. Á sviðinu hjá HB Granda á sunnudag mætir m.a. leikhópurinn Lotta, Latibær og Lína Langsokkur ásamt Mc Gauta. Einar Mikael töframaður mun stjórna dagskránni og Sirkus Ísland mun skemmta gestum. Bryggjuspellið verður nú fyrir framan aðsetur Stangveiðifélagsins en þau halda utan um Dorgveiðikeppni krakka. Koddaslagurinn verður á sunnudeginum sem og Björgun úr sjó sem Landhelgisgæslan sér um.
Á Sjómannadaginn mun skrúðganga fara frá Hörpu kl. 13.00 þar sem gengið er niður á Grandagarð. Þar mun svo heiðrun sjómanna fara fram kl. 14.00. í beinni útsendingu frá RÁS 1.
Í veislutjaldi á Grandabryggju verður Slysavarnarfélag kvenna með kaffisölu en nú er verið að safna fyrir nýju björgunarskipi.
Sjóminjasafnið býður gestum frítt inn á sýningu sem var opnuð 9. júní 2018 og nefnist Fiskur & fólk þar sem alls konar gagnvirkir skjáir og leikir gefa færi á þátttöku gesta sem og að skoða og fara í ratleik í varðskipinu Óðinn. Þar fyri framan verður Línubrú í gangi sem aðilar úr björgunarseitinni Ársæl sjá um.
Hátiðin er einnig unnin í samstarfi við Umhverfisstofnun sem fræðir gesti m.a. um hafið og umhverfi þess. Hafró heldur utan um hina svokölluðu Furðufiskasýningu en þar er að finna alla helstu nytjafiska sem lifa umhverfis Ísland.
Þá viljum við leggja áherslu á að hátíðin reyni að temja sér umhverfisvæn markmið og því verður ekki leyft að vera með blöðrur á svæðinu, nota plastílát sem minnst nema hægt sá að endurnýta þau og einnig stefnum við á að vera með allt rusl flokkað meðan á hátíðinni stendur.
Leiksvæðið Bryggjusprell er hannað út frá því að endurnýta hluti sem notaðir eru á hafnarsvæðinu.
Fjöldi annarra skipulagðra viðburða verða í gangi alla helgina. Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna inn á www.hatidhafsins.is