Sem kunnugt er orðið þá var s.l. miðvikudag undirritað samkomulag milli Faxaflóahafna sf. og Silicor Materials um að Silicor reisi sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Með undirritun samkomulagsins er stigið fyrsta skrefið í verkefninu en ýmis verkefni eru framundan. Framleiðsla Silicor er sólakísill sem fer m.a. til framleiðslu á sólarrafhlöðum. Í dag er þessi framleiðsla mjög plássfrek, en með nýrri aðferðafræði sem Silicor hefur einkaleyfi á þá er umfang starfseminnar minnkað verulega og allir verkferlar mjög hreinlegir.
Verksmiðjan verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og umhverfisáhrif framleiðslunnar hverfandi – en ljóst að framleiðslan verður nýtt til mjög umhverfisvænna hluta. Það er í samræmi við væntingar og stefnu Faxaflóahafna sf. að sú starfsemi sem Silicor hyggst stunda á Grundartanga rísi. Stafsemin er hóflega orkufrek, mannaflafrek, ekki síst varðandi tæknistörf og án umhverfisröskunar. Forráðamenn verkefnisins hafa nefnt að áætlaður starfsmannafjöldi verði um 400 manns.
Sú yfirlýsing sem undirrituð var á miðvikudag felur í sér að Silicor fái undir starfsemi sína 32 hektara lands, en þar er ráðgert að 5 hektarar lóðarinnar verði grænt svæði. Faxaflóahafnir sf. munu leggja nýjan veg að lóðinni, en fyrirtækið annast allar lóðaframkvæmdir.
Úr lóðinni munu koma á.a.g. 550.000 rúmmetrar af efni, sem ætlunin er að nýta í næsta nágrenni lóðarinnar með landmótun og umhverfisbótum m.a. í kringum Katanestjörnina. Hvalfjarðarsveit vinnur nú að breytingu á aðalskipulagi svæðisins og í undirbúningi er einnig vinna við deiliskipulag og stefnt að því að skipulagsþættinum verði lokið í ágúst eða september.
Silicor stefnir að því að hefja framkvæmdir á lóðinni í október og að hefja starfsemi á árinu 2016 eða 2017.
Það er því ljóst að framundan bíða stór verkefni en vonast er til að nauðsynlegri samningsgerð vegna lóðar, lóðarleigu, orkusamninga og fjármögnunar verði lokið í sumar.
Allir þeir þættir eru komnir áleiðis, en ýmis handtök þó eftir, sem eru forsenda þess að unnt sé að hefjast handa á lóðinni. Silicor leggur mikla áherslu á að hefja starfsemi sína í anda samfélagslegrar ábyrgðar og forráðamenn fyrirtækisins hafa þegar rætt við fulltrúa háskóla á Íslandi um menntun og þjálfun væntanlegra starfsmanna.
Takist allt vel til er ljóst að starfsemi Silicor mun verða merkileg nýjung í nýtingu grænnar orku.