Fulltrúar sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar og Faxaflóahafna sf. undirrituðu í gær samkomulag sem felur annars vegar í sér stefnuyfirlýsingu um „grænar áherslur í starfsemi, uppbyggingu, gatnagerð og frágang lóða á Grundartanga“ og hins vegar skýr ákvæði um sameiginleg markmið, samstarf og verkaskiptingu á athafna- og hafnarsvæðinu á Grundartanga.
Í samkomulaginu er meðal annars kveðið á um að
- við úthlutun lóða á skilgreindum iðnaðarsvæðum „verði gerðar ríkar kröfur til þess að starfsemi nýrra fyrirtækja hafi í för með sér lágmarksumhverfisáhrif“ og að starfsemin sé þar með ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
- ný fyrirtæki á iðnaðarlóðum skili Faxaflóahöfnum, Hvalfjarðarsveit og Skipulagsstofnun umhverfisskýrslu „þar sem fyrirhugaðri starfsemi er ítarlega lýst“ og á grundvelli skýrslunnar verði tekin sameiginleg ákvörðun um hvort viðkomandi fái úthlutað lóðinni.
- auka samstarf við fyrirtæki sem fyrir eru á Grundartanga „í því skyni að ná enn frekari árangri í umhverfismálum.“
- Faxaflóahafnir og Hvalfjarðarsveit eigi með sér formlega samráðsfundi um umhverfismál á Grundartanga og upplýsingamiðlun vegna fyrirtækja sem sýna lóðum á svæðinu áhuga.