Faxaflóahafnir hafa verið með vottað ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfi allt frá árinu 2017. Það þýðir að fyrirtækið er stöðugt að leita leiða til þess að minnka kolefnisfótspor sitt og stuðla að umhverfisvænu vinnuumhverfi.
Faxaflóahafnir hafa nú fest kaup á þremur rafbílum af gerðinni Skoda Enyaq. Þeir eru fjórhjóladrifnir og með yfir 400 km drægni á hleðslunni. Fyrsti bíllinn hefur þegar verið afhentur og er notaður við flutning hafnarþjónustumanna milli Akraness og Reykjavíkur.
Þegar þessir þrír bílar hafa verið teknir í notkun verða komnir alls sjö rafknúnir bílar í notkun hjá Faxaflóahöfnum. Búast má við að innleiðing þessara þriggja bíla dragi úr losun hafnarinnar um 22.000 kg CO² eða sem svarar til 20% heildarlosunar frá bílum og tækjum.
Til viðbótar þessu var á síðasta ári, í Bækistöðinni, tekinn í notkun metanknúinn pallbíll frá Iveco sem reynst hefur vel. Þar sem metanið fellur til frá sorpi hér á landi telst engin losun vera frá slíkum bílum í útsteymisbókhaldi.
Samhliða þessu hefur verið bætt við hleðslustöðvum fyrir rafbíla á Akranesi og á bílastæðunum við Miðbakka. Á Miðbakka voru settar upp tíu 22 kW hleðslur og við Hafnarhúsið á Akranesi fjórar slíkar.
Því má segja að stórt skref hafi verið tekið í orkuskiptum bíla hjá Faxaflóahöfnum og stuðlað að hvatningu til starfsmanna í sömu átt.