Í gær, miðvikudaginn 8. desember, var kynnt ný útgefin skýrsla um orkuskipti á hafi. Skýrslan var gerð af norska ráðgjafafyrirtækinu DNV fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Faxaflóahafnir. Skýrslan leiðir í ljós að fiskveiðar standa fyrir meirihluta eldsneytisnotkunar og losunar úr siglingageira Íslands eða 90 %. Orkuþörf fiskiskipa er misjöfn og fer að öllu jöfnu eftir stærð skipsins og siglingartíma á hafi úti. Fyrir smærri fiskiskip væri hægt að nýta rafmagn og vetni fyrir styttri ferðir. Stærri fiskiskip sem eru fjærri höfnum í lengri tíma og þurfa meiri orku, þá er horft til þess að nota ammoníal og metanól sem búið er til úr vetni. Reiknað er með að ný tækni til að nýta rafeldsneyti á skip verði aðgengileg, í mismiklum mæli, í kringum árið 2030. Ráðandi orkugjafar verði að öllum líkindum ammóníak og metanól.
Gunnar Tryggvason, sviðsstjóri viðskipta hjá Faxaflóahöfnum hafði eftirfarandi að segja um skýrsluna: „Orkuskipti á hafi eru stórt viðfangsefni og skýrslan vísar okkur veginn inn í næstu skref. Niðurstöður hennar eru raunsæisákall um að grípa þurfi til aðgerða strax til að ná 10% markmiðinu um grænt eldsneyti í haftengdri starfsemi árið 2030.“
Ísland hefur sett sér það markmið með lögum að verða kolefnishlutlaust árið 2040 og verður að ná því markmiði að 10% orku í siglingum verði endurnýjanleg fyrir árið 2030. Niðurstöður skýrslunnar sýna að orkuskipti á hafi eru möguleg en samstarf á breiðum grundvelli milli stjórnvalda, atvinnulífs og annarra hagsmunaaðila er þörf til að ná þeim árangri sem ætlast er til.