Fjörusteinninn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna hafa verið veitt frá árinu 2007 og voru veitt að þessu sinni  í 16. skipti til Norðuráls. Venjan hefur verið að veita verðlaunin fyrirtækjum sem starfa á hafnarsvæðunum og sýnt hafa fram á framsækni í umhverfismálum og verið til fyrirmyndar hvað varðar frágang á lóðum og snyrtilegt umhverfi.

Eftirfarandi aðilar hafa hlotið Fjörusteininn frá upphafi:

  • 2007  Eimskipafélag Íslands
  • 2008  Nathan og Olsen hf
  • 2009  Egilsson ehf
  • 2010  Jón Ásbjörnsson og Fiskkaup ehf
  • 2011  Lýsi hf
  • 2012  Samskip hf
  • 2013  Elding – hvalaskoðun ehf
  • 2014  HB Grandi hf
  • 2015  Íslenski Sjávarklasinn ehf
  • 2016  Special Tours
  • 2017  Landhelgisgæsla Íslands
  • 2018 Hafið öndvegissetur
  • 2019 Hafrannsóknarstofnun Íslands
  • 2020 Harpan
  • 2021 Krónan
  • 2023 Norðurál

Rökstuðningur á vali:

Frágangur á lóð, aðkoma og umgengni á lóð Norðuráls á Grundartanga er til fyrirmyndar.

Norðurál er með vottað alþjóðlegt umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001 staðlinum. Norðurál hefur sýnt að það er framsækið þar sem það hefur unnið  markvisst að verkefnum er draga úr umhverfisáhrifum fyrirtækisins og hefur verið virkur þátttakandi í nýsköpun og þróun tæknilegra lausna með til að mynda stuðningi við rannsóknarverkefni í áliðnaði. Kolefnisspor Norðuráls við framleiðslu áls er með því lægsta í heiminum. Hefur fyrirtækið sett sér það markmið að losun gróðurhúsalofttegunda hafi dregist saman um a.m.k. 40% árið 2030 miðað við árið 2015 fyrir stærstu losunarþætti sem falla ekki undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir. Þess má einnig geta að Norðurál hefur nýtt sjó til kælingar í stað ferskvatns, þar sem því er við komið.Óháðir aðilar hafa eftirlit með um 70 mæliþáttum í og við Hvalfjörð og eru niðurstöður þessarar umhverfisvöktunar fyrir árið 2022 þau að öll viðmiðunarmörk eru uppfyllt sem sett eru í starfsleyfum fyrir loftgæði, ferskvatn, gras, hey og sjó. Nánasta umhverfi fyrirtækisins í Hvalfirði hefur verið nefnt mest rannsakað svæði landsins.Umhverfisstofnun hefur eftirlit með starfsemi Norðuráls til að tryggja að mengun fari ekki yfir leyfileg mörk. Samkvæmt síðustu eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar á vef stofnunarinnar var starfsemin frávika og athugasemdalaus.

Á myndinni eru:

Þorsteinn Ingi Magnússon framkvæmdastjóri öryggis-, umhverfis- og umbótasviðs Norðuráls, Margrét Rós Gunnarsdóttir verkefnastjóri samskipta og samfélagsmála Norðuráls, Sigrún Helgadóttir framkvæmdastjóri Norðuráls, Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna.

FaxaportsFaxaports linkedin