Þó svo að mannsskepnunni finnist almennt ekki margt breytast í umhverfi okkar þá skynja dýrin þær breytingar sem eru að verða mun betur.  Þetta sjáum við í nýjum tegundum fiska sem koma upp að Íslandsströndum, breytt göngumynstur þeirra, farfugla sem hættir eru að fljúga utan að hausti og nýja fuglategund sem sést hefur á Íslandi.  Við heyrum af viðvarandi „þörungamengun“ í skelfiski þannig að ekki er hægt lengur að treysta á „R“ mánuði til kræklingatínslu í Hvalfirði.  Augljós er sú þróun að jöklar hopa bæði á Íslandi og á norðurslóðum og rannsóknir sýna að súrnun sjávar í norðurhöfum er staðreynd og ágerist hraðar en áður var haldið.  Tvennt blasir við í umhverfismálum hafsins:

  1. Súrnun sjávar.
  2. Hlýnun sjávar.

Hvort tveggja er staðreynd sem hefur veruleg áhrif á lífriki hafsins.  Nú kann að vera að aðgerðir muni ekki einar sér duga til að vega á móti þeirri þróun sem blasir við, en augljós er sú skylda að grípa til þeirra aðgerða sem geta vegið gegn þróuninni.
Siglingar eru almennt hagkvæmur flutningamáti á vöru og fólki, en talið er að siglingar séu ábyrgar fyrir um 2,2% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum.   Af heildarlosun Íslands er talið að sjávarútvegur vegi um 10% en þar hefur losunin dregist saman um u.þ.b. 13% frá árinu 1990.  Þegar litið er til mótvægisaðgerða vegna siglinga þá eru nokkrar leiðir augljósar:

  1. Upptaka ECA svæðis innan efnahagslögsögu Íslands. Í því felst að eldneyti má ekki innhalda meira en 0,1% af brennisteinsefnum (í stað markmiðs Íslands um 0,5% árið 2020).
  2. Með ECA svæði umhverfis Íslands þarf að fá Grænland, Færeyjar og Noreg með í lið og girða þannig stórt svæði í norður Atlantshafi með ECA svæði.
  3. Augljóst er að banna á notkun svartolíu á skip sem sigla um Norðurhöf. Faxaflóahafnir sf. og Hafnasamband Íslands hafa undirritað yfirlýsingu Arctic Commitment þar sem lagt er til bann við notkun svartolíu í Norðurhöfum.
  4. Faxaflóahafnir sf. og Hafnasamband Íslands hafa skorað á stjórnvöld að taka upp ECA svæði innan efnahagslögsögu Íslands.
  5. Faxaflóahafnir sf. hafa boðið upp á landtengingar skipa í tæp 40 ár. Frá árinu 2016 er skipum sem geta tengst rafmagni skylt að nýta rafmagn í viðlegu.  Nánast öll fiskiskip og togarar geta tengst landrafmagni og í Gömlu höfninni í Reykjavík og á Akranesi eru allflest skip landtengd.
  6. Í skoðun er hvernig tengja megi flugningaskip rafmagni en það myndi taka til skipa í Sundahöfn og á Grundartanga. Fleiri tæknileg atriði þarf að skoða – en verkefnið augljóst og stefnan skýr um að auka notkun rafmagns í viðlegu skipa.  Heitt vatn er einnig kostur fyrir einhver skip.
  7. Landtenging skemmtiferðaskipa er sérstakt verkefni og kostnaðarsamt. Aflþörf þessara skipa er gríðarleg (um 5-15 Mw.) og viðkomutími þeirra tiltölulega stuttur.  Háspennutengingar eru valkostur sem íslenskar hafnir eru reiðubúnar til að þróa, en til þess að slíkt verði mögulegt þarf til að koma opinber stuðningur auk þess sem í flestum höfnum á Íslandi þarf að styrkja flutningskerfi rafmagns.  Þá má gera ráð fyrir því að ný skemmtiferðaskip muni í auknum mæli verða knúin fljótandi gasi (LNG), sem er það hreinasta eldsneyti sem völ er á.  Eldri skip munu ganga úr sér en ný kynslóð skipa verða því fleiri knúin vistvænna eldsneyti.

Þó svo að starfsemi Faxaflóahafna sf. sé ekki ábyrg fyrir nema um 0,01% af losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum þá liggur fyrir sú skylda að grípa til þeirra aðgerða sem mögulegt er til að draga úr losun.  Horfa verður til ábyrgðar skipaeigenda og vilja þeirra til átaks í þessu efni, en í sjávarútvegi hefur orðið mjög góð viðhorfsbreyting í þessu efni og ríkur vilji til að draga úr losun og notkun svartolíu.  Það er skynsamlegt viðhorf enda veltur nýting auðlinda sjávar á því að vel sé gengið um lífríkið.  Ætla má að með landtengingu skipa megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á þeim vettvangi um 4,0% af þeim 10% sem losun skipa skilar í dag.
22.5.2017
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna sf.

FaxaportsFaxaports linkedin