Í ár verða liðin 100 ár frá því að Gamla höfnin var formlega tekin í notkun, en þá voru verklok þeirra miklu hafnarframkvæmda sem hófust árið 1913. Það var engin annar en N.C. Monberg sem tók að sér hafnargerðina í Reykjavík en hann var einn af þekktustu athafnarmönnum Danmerkur og um tíma ráðherra í dönsku stjórninni. Hafnargerðin byrjaði 8. mars 1913 þegar gufuskipið Edvard Grieg lagðist við legufæri á höfninni í Reykjavík. Innan borðs voru margs konar verkfæri og vinnutæki, meðal annars tveir gufuknúnir lyftikranar, tveir uppskipunarprammar, eimvagn (Minør), járnbrautarteinar og 20 vagnar sem nota átti við gerð hinnar nýju hafnar. Daginn eftir að skipið kom hófu 40 verkakarlar uppskipun en aðeins tókst að flytja nokkuð af farminum í land vegna illviðris. Gripið var til þess ráðs að sigla skipinu inn til Viðeyjar þar sem það gat lagst að bryggju við Sundabakka. Þar var mestu af farminum skipað upp. Stærstu tækin voru flutt í land í mörgum hlutum. Síðustu vikuna í mars hófst undirbúningsvinnan við hafnargerðina. Ákveðið var að leggja járnbraut alla leið frá Alliance-krók vestur við Örfiriseyjargranda upp í Skólavörðuholt austanvert og upp að Öskjuhlíð. Þetta voru fyrstu handtökin sem unnin voru við hafnargerð í Reykjavík.
Árið 1917 var afar erfitt fyrir Íslendinga og bitnaði það m.a. á hafnargerðinni. Fyrri heimsstyrjöldin var í algleymingi og ótakmarkaður kafbátahernaður geisaði á Atlantshafi. Siglingar voru í lamasessi, skortur varð á nauðsynjavörum og dýrtíð mikil. Það birti hins vegar til þann 16. nóvember 1917 þegar hafnarnefndin kom saman a skrifstofu Knud Zimsen borgarstjóra ásamt verkfræðingunum Kirk og Pedersen og ráðunautum hafnarnefndar. Á fundinum náðist samkomulag um þau ágreiningsmál sem uppi voru og tóku hafnarnefndin við hafnarmannvirkjunum með nokkrum fyrirvörum frá þeim degi að telja. Telst það stofndagur Gömlu hafnarinnar, en hafnarsjóður var þó stofnaður fyrr eða árið 1856. Höfnin varð fljótlega þungamiðja atvinnulífs í Reykjavík og um leið miðstöð verslunar og viðskipta í landinu. Skipafélög settu skemmur sínar og höfuðstöðvar niður við höfnina og mörg af stærstu útgerðafélögum landsins gerðu út frá höfninni og starfræktu fiskvinnslu í stórum stíl. Nú 100 árum síðar gegnir Gamla höfnin enn sem fyrr lykilhlutverki, m.a. sem sjávarútvegs-, flutninga-, ferðaþjónustu-, afþreyingar- og menningarhöfn. Höfnin iðar einfaldlega áfram af gömlu og nýju lífi !
1870 – 1909, Reykjavíkurhöfn, fjöldi skúta og báta á höfninni. Hópur manna stendur á bryggju í forgrunni.
Seglskip fyrir fullum seglum hefur verið sett upp í fjöru til botnhreinsunar um það leyti sem hafnargerðinni var að ljúka 1917-1918. Langa bryggjan er Zimsensbryggja en austan hennar má greina Björnsbryggju (Frederiksesbryggju). Batterísgarður í baksýn.
Pioneer-eimreiðin. Við hlið hennar standa eimreiðarstjórarnir Guðmundur Guðmundsson og Páll Ásmundsson.
Verkamenn í grjótnáminu í Öskjuhlíð við hafnargerðina 1913-1917.
Ofangreindar upplýsingar eru teknar upp úr bókinni:
Bókin er fáanleg í eftirfarandi Eymundsson verslunum:
Eymundsson – Austurstræti
Eymundsson – Hallarmúla
Eymundsson – Kringlunni
Eymundsson – Laugavegi
Eymundsson – Mjódd
Eymundsson – Skólavörðustíg
Eymundsson – Smáralind
Eymundsson – Hafnarfirði
Eymundsson – Akranes