Sjávarklasinn-jan2014Föstudaginn 17. janúar – sama dag og Eimskipafélag Íslands fagnaði 100 ára afmæli – þá var tekinn í notkun annar áfangi efri hæðar hússins undir starfsemi Íslenska sjávarklasans.  Fyrsti áfangi var tekinn í notkun árið 2012 og þá um 800 fermetrar en nú hafa 1000 fermetrar bæst við.  Faxaflóahafnir sf. eiga húsnæðið og annast innréttingu þess, en leigja síðan Íslenska sjávarklasanum ehf., sem aftur framleigir til smærri fyrirtækja, sem á einn og annan hátt tengjast framleiðslu eða þróun á varningi, búnaði eða verkefnum í sjávarútvegi.  Nú eru um 30 fyrirtæki búin að koma sér fyrir í húsinu og margir áhugasamir að komast í þetta frjóa umhverfis.  Í þeim 1800 fermetrum sem teknir hafa verið í notkun eru því starfandi mikill fjöldi einstaklinga sem byggja verkefni sín á hugviti og skila þeim í þróun sjávarútvegs.
Við opnun áfangans kom fjöldi gesta, en Hjálmar Sveinsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna sf. flutti þar stutt ávarp og þeir Gísli Gíslason, hafnarstjóri og Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Sjávarklasans skrifuðu undir leigusamning um rýmið.  Þá sagði hugvitsfólk frá verkefnum sínum og óhætt að segja að þær framsögur blésu gestum bjartsýni í brjóst.
Einum áfanga er ólokið í innréttingu efri hæðarinnar og er unnið að hönnun, en ráðgert er að sá áfangi verði tekinn í notkun í september.  Þá verður öll efri hæð Bakkaskemmu, um 2400 fermetrar, notuð af íslensku hugvitsfólki.

FaxaportsFaxaports linkedin