Fimmtudaginn 21. nóvember verður bókin „Hér heilsast skipin gefin út.  Bókin er rituð fyrir forgöngu Faxaflóahafna sf., en Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur ritaði verkið, sem kemur út í tveimur bindum og prýða margar ljósmyndir verkið. Capture
Tilefni söguritunarinnar er að öld er liðin frá því að hin mikla hafnargerð hófst í Reykjavík. Hún var á þeim tíma umsvifamesta og fjárfrekasta framkvæmd Íslandssögunnar. Frá því að hafnargerðinni lauk 1917 hefur höfnin verið lífæð höfuðborgarinnar og líklega átt stærstan þátt í því mikla forskoti sem Reykjavík náði umfram aðra kaupstaði á landinu á flestum sviðum.
Í tveimur bindum birtist saga Faxaflóahafna en til þeirra teljast Reykjavíkurhöfn, Akraneshöfn, Borgarneshöfn og Grundartangahöfn.
Ritið nær enn fremur til sögu eldri hafna á svæðinu allt frá upphafi Íslandsbyggðar. Þar má nefna Hvítárvelli í Borgarfirði, hafnir í Hvalfirði, Straumfjörð á Mýrum og Þerneyjarsund. Saga hafnanna er verðugt viðfangsefni sem varðar sjálfar undirstöður samfélagsins og hvernig hafnir og starfsemin við þær hafa mótað bæjarfélögin.
Í verkinu gerir höfundurinn, Guðjón Friðriksson, þessari merku sögu skil með þeim hætti sem hann hefur getið sér frægðar fyrir í fyrri verkum.  Faxaflóahafnir sf. færa Guðjóni bestu þakkir fyrir frábært verk, en einnig er útgáfufyrirtækinu Uppheimum færðar þakkir fyrir þeirra þátt við útgáfu verksins.
Hér heilsast skipin-2013

FaxaportsFaxaports linkedin