Aðalfundur Faxaflóahafna sf. var haldinn í gær, föstudaginn 27. júní og þar gerð grein fyrir starfsemi félagsins á árinu 2013 og afkomu þess. Á fundinum var m.a. tilkynnt um tilnefningar eigenda í stjórn og er nýr formaður Kristín Soffía Jónsdóttir, en Hjálmar Sveinsson lét af formennsku eftir fjögur farsæl ár. Það hefur verið hefðbundið frá stofnun Faxaflóahafna sf. að veita umhverfisviðurkenningu, sem nefnist Fjörusteinninn, en viðurkenningin er veitt því fyrirtæki sem hefur lagt gott að mörkum í umhverfismálum. Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkti samhljóða að veita HB Granda hf. Fjörusteininn árið 2014 og fylgdi samþykktinni eftirfarandi rökstuðningur: Copy of 6498
Fjörusteinninn umhverfisviðurkenning Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2014 hlýtur fyrirtækið HB Grandi hf. að Norðurgarði 1.
„Fyrirtækið Grandi varð til við samruna nokkurra fyrirtækja, Ísbjörninn hf., Bæjarútgerð Reykjavíkur, Hraðfrystistöðin í Reykjavík og síðar kom Haraldur Böðvarsson  á Akranesi, ásamt Tanga og Svan, inn í fyrirtækið og eftir það heitir fyrirtækið HB Grandi hf. Í október sl. keypti HB Grandi hf.Vigni G. Jónsson hf. og Laugafisk hf. og nú fyrr í mánuðinum var tilkynnt um kaup HB Granda hf. á Norðanfiski ehf. Þessi þrjú fyrirtæki eru öll staðsett á Akranesi.
HB Grandi hf. rekur fiskvinnslu og útgerð á nokkrum stöðum á landinu og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins á  Norðurgarði í Gömlu höfninni í Reykjavík. Á undanförnum árum hefur fyrirtækið staðið að uppbyggingu á Norðurgarði og gert það af miklum myndarskap. Jafnframt því að standa í uppbyggingu hefur fyrirtækið farið í niðurrif á eldri og úrsérgengnum byggingum og tiltekt á sínu athafnasvæði ásamt ýmsum  umhverfisbótum.
Fyrirtækið starfar skv. ákvæðum um ábyrgar fiskveiðar og þar kemur meðal annars fram að vinna skal ötullega að því að tryggja sjálfbæra nýtingu á auðlindinni, m.a. með setningu aflareglu sem er þróuð fyrir hvern nytjastofn, með reglum varðandi útbúnað veiðarfæra, þar sem áhersla er lögð á að veiða einungis þær tegundir og þá stærð af fiski sem leitað er eftir, og með lokun ákveðinna svæða til að vernda hrygningarfisk eða ungviði.
Copy of IMG_0110
Enn fremur er fyrirtækið aðili að félaginu Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, þar sem lögð er áhersla á að fyrirtæki axli ábyrgð á þeim áhrifum sem þau hafa á fólk og umhverfið. Ábyrg félög eru þau sem með markvissum hætti skipuleggja starfsemi sína þannig að þau skaði ekki samfélagið og umhverfið heldur hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins.
Á árinu 2012  var hafin undirbúningur að byggingu frystigeymslu og flokkunaraðstöðu fyrir frosinn fisk yst á Norðurgarði. Í tengslum við skipulagningu var ákveðið í samráði við Faxaflóahafnir sf. að halda samkeppni um listaverk yst á garðinum. Niðurstaða samkeppninnar var verk Ólafar Nordal, Þúfan, og má segja að þegar verkið var tilbúið sé það orðið eitt af sterkari kennileitum í Gömlu höfninni.“
 Fyrirtækið HB  Grandi hf. er því vel að því komið að hljóta umhverfisverðlaun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2014″
Þúfa5

FaxaportsFaxaports linkedin