Í byrjun árs 2020 voru áætlaðar 187 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna með 203.214 farþega. Miðað við þessar tölur átti að vera 8% aukning í farþegafjölda en 2% fækkun í skipakomum milli ára. COVID-19 heimsfaraldurinn náði hámarki hér á landi í kringum 22. mars 2020 eftir að hafa risið hratt frá því hans varð vart í lok febrúar. Það var ekki fyrr en eftir 5. apríl sem dró skyndilega úr fjölda daglegra smita hérlendis. Reglur voru settar og öllum sem koma til landsins gert að fara í sóttkví í 14 daga frá komu, til að gæta almannaheilla og hafa hemil á farsóttinni hér á landi.  Í kringum apríl/maí fer að bera á því að skipafélög byrja að afboða komu sína fyrir sumarið til Íslands. Á þessum tímapunkti, taka flest skipafélögin þá ákvörðun að stöðva heimssiglingar þar sem faraldurinn er í mikilli uppsveiflu á mörgum stöðum í heiminum. Ljóst var á þessum tímapunkti að flestar skipakomur sem búið var að bóka hjá Faxaflóahöfnum þetta sumarið myndu afbókast.

Alls voru 7 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna þetta árið með 1.346 farþega. Fyrsta skip ársins, Magellan, kom 9. mars og hafði sólahrings viðdvöl í höfuðborginni. Skipið var gert út af Cruise & Maritime Voyages en því miður fór það skipafélag á hausinn í sumar.  Cruise & Maritime Voyages gerði út skipin: Astor, Astoria, Marco Polo og Magellan, allt skip sem hingað komu til lands. Skipafélagið áætlaði í kringum 100 skipakomur hingað til lands þetta árið á hinar ýmsu hafnir. Það var síðan skipafélagið Ponant sem ákveður í júlí að hefja siglingar til Íslands. Fram að þeim tíma þá hafði ekkert farþegaskip komið til Faxaflóahafna frá því í mars. Skipið sem kom heitir Le Bellot.  Um er að ræða leiðangursskip sem getur tekið í kringum 200 farþega. Hins vegar var skipið aldrei fullbókað þessar 6 skipakomur sem það kom til Reykjavíkur.  Allir farþegar komu með leiguflugvél frá París til Keflavíkur og fóru í skimun á Keflavíkurflugvelli. Farþegar voru síðan fluttir ca. 10-15 í hverri rútu niður á Miðbakka.  Farþegar þurftu að passa sjálfir uppá fjarlægðartakmörk og bera andlitsgrímur. Þegar neikvæð niðurstaða var komin, þá fyrst mátti fólk fara um borð í skipið og sýna þurfti SMS því til staðfestingar.  Engin smit komu frá skipunum til landsins enda vel gætt að sóttvörnum.

Tekjur Faxaflóahafna árið 2019 af farþegaskipum voru í kringum 597.000.000 m. kr. en á þeim tíma gerði það í kringum 14% af heildartekjum fyrirtækisins. Hins vegar voru tekjur Faxaflóahafna í ár fyrir farþegaskip í kringum 11.200.000 m. kr., er því um heilmikið tekjutap að ræða milli ára þegar kemur að farþegaskipum.

Rauntölur liggja nú fyrir árið 2020 og eru sem hér segir:

Hverjir hafa tekjur af farþegaskipum?

  • Ríkið: Fær skatttekjur í formi vitagjalda og tollafgreiðslugjalda
  • Hafnir: Tekjur af hafna- og þjónustugjöldum
  • Þjónustuaðilar: Eru þeir aðilar sem þjónusta skipin beint
  • Skipaumboðsmenn: Sjá um að þjónusta skipið, annast samskipti við hafnir, opinbera aðila og innlenda birgja
  • Ferðaþjónustuaðilar: Skipuleggja ferðir fyrir skipafélögin
  • Rútufyrirtæki og leiðsögumenn:  Koma ferðamönnum á leiðarenda undir leiðsögn
  • Birgjar: Sjá um aðföng um borð í skipin
  • Aðrir þjónustuaðilar: Viðgerðir á ýmiskonar búnaði,skemmtikraftar, sorphirða o.þ.h.

Árið 2018 var framkvæmd könnun á vegum GP Wild og niðurstöður sýna að heimsóknir farþegaskipa skiluðu 16,4 milljarða eftir sig hér á landi og um 920 heilsárs urðu  til. Mörg þessara starfa verða til á landsbyggðinni, sjá nánar fréttatilkynningu á heimasíðu Cruise Iceland varðandi efnahagsleg áhrif farþegaskipa á Ísland.

Eldsneyti 

Þann 1. janúar 2020 tók í gildi reglugerð um að brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands má ekki vera meira 0,1% (m/m). Framangreint ber með sér að nú er tæplega mögulegt að nota svartolíu nema skip séu útbúin hreinsibúnaði og sá búnaður nægi til að brennisteinsinnihald fari ekki yfir 0,1%.

  • Umhverfisstofnun sér um allt eftirlit með að þessum reglum sé framfylgt við Ísland.
  • Þegar farþegaskip leggjast að bryggju í íslenskri höfn er slökkt á aðalvélum skipsins. Ljósavélarnar eru hins vegar áfram í gangi enda orkuþörfin mikil.
  • Öllum skipum við bryggju er skylt að nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis ef það er mögulegt.
  • Það gildir auðvitað líka um stór skip eins og farþegaskip en dreifikerfi raforku eru því miður vanbúin til að veita slíka þjónustu enda kalla slík skip á háspennutengingar

Lofthreinsikerfi og úrgangur

  • Mörg farþegaskip eru með sérstakar síur til varnar því að sót berst út í andrúmsloftið.
  • Ný lofthreinsikerfi farþegaskipa hafa þá eiginleika að minnka losun brennisteinstvíoxíðs (So2) um 98 %.
  • Brennisteinstvíoxið (SO2) er algengt mengunarefni sem losnar út í umhverfið við brennslu á jarðefnaeldsneyti. Losun SO2 er langmest frá flugvélum, þar næst frá bílum en lang minnst frá skipum.
  • Sífellt fleiri farþegaskip eru útbúin sólarrafhlöðum til þess að draga úr þörfinni fyrir mengandi orkuframleiðslu.
  • Útgerðir farþegaskipa leggja metnað sinn í að skipin losi hvergi í heiminum ómeðhöndlað skólp.
  • Farþegaskip flokka allan sinn úrgang sem komið er til móttökuaðila í höfn.

Nýsköpun

  • Útgerðir farþegaskipa leggja áherslu á að endurnýja flota sinn samkvæmt bestu fáanlegri tækni.
  • Sú nýjung er komin að mörg hver farþegaskip eru knúin náttúrulegu gasi (LNG).
  • Útgerðirnar verja á annað hundrað milljörðum króna til að gera skipin umhverfisvænni, því það er orðin krafa hjá flestu löndum.
  • Spennandi möguleikar eru á að þróa nýja þjónustu og vörur fyrir farþegaskipin og gesti þeirra, auka fjölbreytni í framboði afþreyingar, skoðunarferða, hugbúnaðar og marvíslegra þjónustuþátta.
  • Þannig getur íslensk hugmyndaauðgi og nýsköpun stuðlað að enn frekari verðmæta sköpun og virðisauka þessarar ört vaxandi þjónustugreinar.

Leiðbeiningar fyrir ferðamenn

  • Þann 29. október 2018 varð Ísland hluti af starfsvæði AECO.
  • Association of Arctic Expedition Cruise Operators (AECO) eru alþjóðleg samtök rekstraraðila leiðangursfarþegaskipa og samstarfsaðila þeirra á norðurslóðum, sem helga sig umhverfisvænum, öruggum og tillitssömum rekstri skemmtiskipa. AECO hefur um 70 alþjóðlega meðlimi – þar á meðal eru 40 skiprekendur, eigendur og stjórnendur, og 50 leiðangursdarþegaskip – og er því í forsvari fyrir meirihluta þeirra sem stunda slíkan rekstur á norðurslóðum. Meðlimir AECO sigldu með alls 26.000 farþega til Svalbarða, Grænlands, Íslands, Kanada og Frans Jósefslands árið 2018. Cruise Iceland og North Atlantic Agency á Íslandi eru meðlimir í AECO.
  • Starfssvæði samtakanna nær yfir Svalbarða, Jan Mayen, Grænland, norðurhluta Kanada og norðurskautsþjóðgarðinn í Rússlandi, sem og Ísland frá árinu 2019.
  • Samtökin hafa sett saman fjölda reglna sem meðlimum þeirra er skylt að fylgja. Þar á meðal eru reglur er varða starfsemi, dýralíf, gesti, ákveðna staði og annað.
  • Árið 2019 voru gefnar út fyrstu AECO leiðbeiningarnar fyrir Seyðisfjörð.  Þær leiðbeiningar hafa verið unnar í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu. Nú eru Faxaflóahafnir að vinna með hagsmunaaðilum að slíkum leiðbeiningum fyrir Reykjavík og munu þær líta dagsins ljós í maí.
  • Umhverfisstofnun er þar að auki búin að gefa út leiðbeiningar fyrir Friðlandið á Hornströndum.  Hér má sjá tilmæli til ferðaþjónustuaðila.

Hvað eru Faxaflóahafnir sf. að gera í umhverfis- og öryggismálum?

  • Faxaflóahafnir eru með vottað ISO 14001 umhverfisstjórnunarkerfi síðan haustið 2017 og vottað ISO 45001 öryggisstjórnunarkerfi síðan desember 2019. Umhverfis- og öryggisreglur fyrirtækisins má finna hér.
  • Faxaflóahafnir hafa undirritað 10 ára samstarfssamningur við Skógræktina.  Ræktaður verður skógur í nafni Faxaflóahafna í landi Klafastaða í Hvalfjarðarsveit, sem er í eigu Faxaflóahfna sf. Áætlað er að planta í kringum 1-3 hektara ár hvert til að kolefnisjafna útblástur frá eigin starfsemi.
  • Langflest farþegaskip með viðurkennt umhverfisstjórnunarkerfi njóta afsláttar af úrgangsgjaldi Faxaflóahafna sf.
  • Í samþykktri gjaldskrá Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2018 var sett inn nýtt ákvæði til bráðabirgða um að bátar sem alfarið eru knúnir rafmagni og notaðir til skipulagðra siglinga með farþega séu undanþegnir bryggju- og lestargjaldi til ársloka 2025.
  • Landtengingar draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annari mengun frá skipum í höfn. Árið 2016 var öllum þeim skipum sem geta tengst við höfn gert skylt að gera svo hjá Faxaflóahöfnum.
  • Faxaflóahafnir og Hafnasamband Íslands hafa skrifað undir áskorun The Arctic commitment um bann við notkun á svartolíu í Norðurhöfum.
  • Faxaflóahafnir sf. eru eitt 130 fyrirtækja á Íslandi sem hafa skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (Parísarsamkomulagið, COP21)
  • Faxaflóahafnir sf. hafa haldið grænt bókhald frá árinu 2006. Í grænu bókhaldi eru eftirfarandi þættir vaktaðir:
    – Raforka (eigin notkun og sala),
    – Heitt og kalt vatn (eigin notkun og sala),
    – Eldsneytisnotkun eigin tækja og losun gróðurhúsalofttegunda,
    – Pappírsnotkun á hvern starfsmann,
    – Úrgangur og spilliefni, bæði frá starfsemi Faxaflóahafna sf. og annarrar starfsemi á hafnarsvæðinu ásamt úrgangi frá skipum,
    – Mengunaróhöpp sem eru tilkynningarskyld,
    – Dýpkun hafna og ráðstöfun dýpkunarefna,
    – Landfyllingar á hafnarsvæðum.
  • Faxaflóahafnir sf. hafa haldið útstreymisbókhald frá árinu 2016. Bókhaldið byggir á þeirri forsendu að útblástur skipa er reiknaður frá því að það kemur inn fyrir hafnarmörkin þangað til það fer út fyrir hafnarmörk aftur. Útblásturinn er því reiknaður bæði við siglingu skipa innan hafnar og við bryggju.

Hvað eru farþegaskipa útgerðirnar að gera í umhverfismálum, sjá nánar hér:

 

 

FaxaportsFaxaports linkedin