Til að hafa raunhæf gögn til að byggja ákvarðanatökur á fengu Faxaflóahafnir Rannsóknarmiðstöð Ferðamála til að framkvæma könnun meðal farþega skemmtiferðaskipa í Reykjavík sumarið 2023. Sú könnun leiddi í ljós að meðaleyðsla farþega skemmtiferðaskipa í Reykjavík árið 2023 var 44.717 kr. á hvern farþega. Þar sem mikil aukning hefur orðið í fjölda skiptifarþega, það eru þeir farþegar sem hefja eða ljúka ferð sinni í Reykjavík og fljúga til eða frá landinu í gegnum Leifstöð, var mikilvægt að kanna eyðslu þessara farþega í samanburði við almenna farþega skemmtiferðaskipa. Könnunin leiddi jafnframt í ljós að meðaleyðsla skiptifarþega var 97.626 kr. og að þeir gistu að meðaltali 2,15 nætur í landi. Til samanburðar þá var eyðsla almennra farþega 27.912 kr. meðan skipið lá við landfestar í Reykjavík.
Árið 2023 komu 306.211 farþegar til Reykjavíkur og Akranes með skemmtiferðaskipum, af þeim voru tæplega helmingur skiptifarþegar, eða 148.615 farþegar alls. Af könnun Rannsóknarmiðstöð Ferðamála má því áætla að farþegar skemmtiferðaskipa hafi skilað tæpum 14 milljörðum króna inn í hagkerfið á höfuðborgarsvæðinu. Með kaupum á hótelgistingu, veitingum, afþreyingu í landi, bílaleigubílum, menningu, minjagripum og annarri verslun.
Aðrar lykilniðurstöður könnunar Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála
Þeir skipafarþegar sem höfðu áætlanir um endurkomu til Íslands töldu 41% svarenda að þeir myndu snúa aftur til landsins og þá með flugi, niðurstöður sem endurspegla rannsóknir á meginlandi Evrópu sem hafa sýnt að skemmtisiglingar eru oft ákveðinn forsmekkur á áfangastað sem síðan er heimsóttur aftur. Niðurstaða sem er skiljanleg þar sem 89% svarenda voru mjög ánægð eða ánægð með heimsókn sína til Reykjavíkur samkvæmt könnun Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála sumarið 2023.
„Þessar niðurstöður um eyðslu farþega skemmtiferðaskipa eru mjög merkilegar, þar sem þær sýna svo ekki verður um villst að sérstaklega skiptifarþegar eru verðmætir ferðamenn fyrir atvinnulífið á höfuðborgarsvæðinu. Nokkuð sem styður okkur í þeirri áherslu sem við leggjum í virðisaukningu af komum skemmtiferðaskipa með því að stuðla að farþegaskiptum í Reykjavík“, segir Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.
Skýrslan frá Rannsóknarmiðstöð Ferðamála kom út í lok ársins 2023 og var meðal annars höfð til hliðsjónar í greiningu Ferðamálastofu á hagrænum áhrifum af komum skemmtiferðaskipa til Íslands. Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér farthegakonnun-rvik-2023.