Faxaflóahafnir kynntu í dag niðurstöður nýrrar skýrslu sem unnin var af Reykjavik Economics, þar sem var gerð var grein fyrir efnahagslegum áhrifum skemmtiferðaskipa og fagleg greining rakin, en um frumrannsókn var að ræða meðal hagaðila greinarinnar.
Skýrslan, sem unnin var í samvinnu við sérfræðinga Faxaflóahafna og fjölda annarra hagaðila, sýnir að fjárhagslegur ávinningur íslenska hagkerfisins er umtalsverður af komum skemmtiferðaskipa til landsins, en efnahagslegt umfang atvinnugreinarinnar var metið á 37,2 milljarða króna árið 2023. Sumar hafnanna við strendur Íslands reiða sig af stórum hluta á komur skemmtiferðaskipa, en heildartekjur allra hafna á Íslandi vegna þeirra voru 3,4 milljarðar árið 2023.
- Efnahagslegt umfang atvinnugreinarinnar metið á 37,2 milljarða króna árið 2023.
- Töluvert meiri neysla hjá farþegum skemmtiferðaskipa en hjá öðrum ferðamönnum.
- Heildarneysla farþega skemmtiferðaskipa 22-30 milljarðar, Bandaríkjamenn stærsti hlutinn.
- Skemmtiferðaskipaiðnaðurinn góður sveiflujafnari fyrir ferðaþjónustuna í heild.
- Farþegafjöldi skemmtiferðaskipa hefur tífaldast á tveimur áratugum.
- Margar skipaútgerðir vinna nú að kolefnishlutleysi, til dæmis með því að knýja skip með vetni eða með nýtingu segla.
- Gert er ráð fyrir að skipasiglingar verði umhverfisvænni í framtíðinni, en hafnir og skipaútgerðir hafa hafið markvissa vegferð til að draga úr umhverfisáhrifum.
- Faxaflóahafnir hafa innleitt „Environmental Port Index“ og bjóða í vaxandi mæli upp á landtengingu í formi rafmagns fyrir minni skemmtiferðaskip. Áætlanir eru um að bjóða upp á það sama fyrir stærri skip árið 2027.
Efnaðir ferðamenn á skemmtiferðaskipum
Mikill munur er á eyðslu skiptifarþega frá skemmtiferðaskipum, sem eyða að meðaltali um 72-92 þúsund krónum á tveggja daga dvöl í Reykjavík, en til samanburðar eyða aðrir ferðamenn að meðaltali um 150 þúsund krónum í heildina á öllu ferðalagi sínu til Íslands. Heildareyðsla ferðamanna af skemmtiferðaskipum er um 22-30 milljarðar og Bandaríkjamenn skipa þar stóran hluta. Skýrslan sýnir jafnframt að ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum til Íslands eru efnamiklir og því sé minna um sveiflur í þeim geira sem gerir hann að góðum sveiflujafnara fyrir ferðaþjónustu í heild. Þá er heildarfarþegafjöldi þeirra sem koma til Íslands í tengslum við skemmtiferðaskip 315 þúsund talsins á síðasta ári, sem gerir um 12-14% af öllum farþegum sem til Íslands koma. Ef rýnt er í skattspor ferðaþjónustu í skýrslunni sést greinilega að þessi hópur leggur sitt af mörkum miðað við sitt hlutfall á sama tíma og skipin eru létt fyrir innviði þar sem þau sigla hringinn í kringum landið.
Magnús Árni Skúlason, stofnandi og framkvæmdarstjóri Reykjavik Economics, segir niðurstöður skýrslunnar jákvæðar: „Umsvif skemmtiferðaskipa á Íslandi komu ánægjulega á óvart miðað við fyrirliggjandi rannsóknir á útgjöldum farþega í landi og tekjum hafna og þjónustuaðila. Áætlað efnahagslegt umfang atvinnugreinarinnar er metið á 37,2 milljarðar króna árið 2023 samkvæmt greiningunni. Þá er átt við bein og óbein útgjöld farþega og skipaútgerða. Í greiningunni var ekki litið til hagnaðar af stafseminni heldur umsvifa. Farþegafjöldi með skemmtiferðaskipum hefur tífaldast á tveimur áratugum og er um fimmtungur þeirra sem ferðast með skemmtiferðaskipum í lúxusflokki. Það hlutfall í Evrópu er 7,6%. Hingað til lands koma því efnameiri gestir sem eru líklegri til að kaupa vörur og þjónustu. Hlutfall skiptifarþega hefur vaxið mikið sem hefur mikil áhrif á efnahagslegt mat.“
Skemmtiferðaskip leiðandi í umhverfislausnum
Ef horft er til kolefnisfótspors vinna margar skipaútgerðir nú að kolefnishlutleysi, til dæmis með því að knýja skip að hluta eða öllu leyti með grænu vetni ásamt því að nýta segl að nýju. Gert er ráð fyrir að skipasiglingar verði umhverfisvænni í framtíðinni, en hafnir og skipaútgerðir hafa hafið markvissa vegferð til að draga úr umhverfisáhrifum. Má þar nefna innleiðingu „Environmental Port Index“ hjá Faxaflóahöfnum, sem bjóða einnig í vaxandi mæli upp á landtengingu í formi rafmagns fyrir minni skemmtiferðaskip og áætla að gera það sama fyrir stærri skipin árið 2027.
Skýrslu Reykjavik Economics má nálgast hér