Í brauðtertukaffi starfsfólks Faxaflóahafna sf. í dag voru tveir starfsmenn fyrirtækisins kvaddir við starfslok þeirra. Annars vegar lauk Bjarni Sigurjónsson störfum í Bækistöðinni eftir tæplega 9 ára starf og Ágúst Ágústsson markaðsstjóri eftir um 25 ára starf. Bjarni hætti reyndar hjá Faxaflóahöfnum í septembermánuði en Ágúst lætur af störfum nú í lok árs.
Ágúst Ágústsson hóf störf hjá Reykjavíkurhöfn árið 1991 og tók fljótlega við markaðsmálum fyrirtækisins með áherslu á að gera Reykjavík að viðkomustað skemmtiferðaskipa í meira mæli en þá þekktist.
Á þeim árum sem liðin eru hefur Ágúst staðið í stafni þessarar markaðssetningar, sem hefur leitt af sér gríðarlega aukningu í komum skemmtiferðaskipa og því ekki annað hægt að segja en að starfið hafi skilað miklum árangri. Markaðssetning á þessu sviði er af ýmsum ástæðum merkileg þar sem hljóðlát þrautsegja, dugnaður og langtímahugsun hefur á tveimur liðlega áratugum skilað margfaldri aukningu í komu skemmtiferðaskipa til Íslands. Árið 1991 komu rétt innan við 20 skemmtiferðaskip til Reykjavíkur og farþegar með þeim voru um 10.000.
Á þeim árum sem hafa liðið hefur þessum skipakomum fjölgað í yfir 100 skip og farþegafjöldinn kominn yfir 100.000 manns auk tugþúsunda fólks í áhöfnum skipanna. Árangurinn er því augljós. Með aukinni komu skemmtiferðaskipa til Íslands hafa fleiri hafnir en Faxaflóahafnir sf. notið þessarar þróunar því Akureyri og Ísafjörður eru einnig viðkomuhafnir fjölda skipa auk þess sem fleiri hafnir njóta einnig komu þessara skipa. Sú markaðssetning sem unnið hefur verið að á síðustu árum á þessu sviði hefur því tekist einstaklega vel þó svo að hún hafi ekki endilega vakið verðskuldaða athygli. Því er hins vegar haldið fram hér að starf Ágústar og þeirra hafna sem lagt hafa hönd á plóginn sé í raun ein merkilegasta markaðsstarfsemi á Íslandi á síðustu árum.
Við starfi Ágústar tekur Erna Kristjánsdóttir, sem áður starfaði hjá Actavis, en hún mun einnig sinna gæðumálum hjá Faxaflóahöfnum sf., en nú er unnið að undirbúningi vottunar fyrirtækisins á sviði umhverfis- og öryggismála.
Faxaflóahafnir sf. færa þeim Ágústi og Bjarna bestu þakkir fyrir vel unnin störf og frábært samstarf, en Erna er boðin velkomin til starfa.