Stjórn Faxaflóahafna sf. hefur samþykkt ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2018.  Afkoma Faxaflóahafna sf. árið 2018 var betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Reglulegar tekjur voru alls  134,4 mkr. umfram áætlun, eða 3,5% en rekstrarútgjöld voru  215,5 mkr. undir áætluðum útgjöldum. Auknar tekjur skiluðu sér aðallega vegna aukins umfangs í skipakomum og þá einkum stækkandi skipum sem komu til hafnar. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði varð því  349,9 mkr. hærri en áætlað hafði verið eða  1.076,8 mkr.  Óreglulegar tekjur af sölu eigna námu 624,3 mkr . 

Rekstrartekjur Faxaflóahafna sf. árið 2018 voru  3.966,7 m.kr. sem er  7,4% hækkun reglulegra tekna á milli áranna 2017 og  2018. Hækkunin á milli ára nemur  274,6 mkr. Þeir megintekjuliðir ársins sem eru yfir því sem áætlað var eru skipagjöld og hafnarþjónusta.

Vörugjöld, sem eru einn megintekjuliður hafnarinnar, stóðu í stað á milli ára.  Rekstrargjöld Faxaflóahafna sf. árið 2018 voru  2.889,9 mkr. og lækka að krónutölu á milli ára um  215,4 eða um  6,9%. Tekjur af fjármagnsliðum námu  24,2  mkr. Vaxtatekjur voru hærri en ráð var fyrir gert, en  vaxtagjöld samkvæmt áætlun.  Faxaflóahafnir sf. bera engin erlend lán eða skuldbindingar þannig að óverulegur gengismunur kemur til færslu undir fjármagnsliðum.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði var  1.076,8 mkr.  Undir óreglulegum liðum er færður söluhagnaður að fjárhæð 624,3 mkr. vegna sölu lands í Sævarhöfða til Reykjavíkurborgar.  Að þeirri fjárhæð meðtalinni er hagnaður ársins 1.725,2 mkr. Eignfærð fjárfesting á árinu 2018 nam 1,5 Ma.kr. en stærsta verkefni hafnarinnar var bygging nýs viðlegubakka utan Klepps, sem verður tekin í notkun á haustdögum árins 2019.

Fjárhagsstaða fyrirtækisins er því áfram traust, en hafa ber í huga að Faxaflóahafnir njóta engra opinberra styrkja til framkvæmda og verða að vera sjálfbærar hvað varðar rekstur, viðhald og þróun.  Því er sem fyrr er mikilvægt að fyrirtækið sé fjárhagslega í stakk búið að leysa þau stóru verkefni sem framundan eru og hafa verður í huga að fyrirtækið þarf að geta tekist á við breytingar og þróun í þjónustu og aðstöðu. Á næstu árum liggja fyrir stór verkefni í Vatnagörðum, á Grundartanga og á Akranesi auk þess sem viðhald  mannvirkja er kostnaðarsamt.

Hér má sjá Ársreikning Faxaflóahafna sf. :Faxaflóahafnir sf. – Ársreikningur 2018 og greinargerð hafnarstjóra:  Greinargerð hafnarstjóra vegna ársreiknings 2018

FaxaportsFaxaports linkedin