Vorið 2024 var samþykkt verkefnatillaga um stefnu og þolmörk vegna móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík og skipan stýrihóps sem heldur utan um verkefnið. Hópurinn hefur nú skilað stefnuramma til ársins 2030 sem tilgreinir framtíðarsýn þar sem sjálfbærni er lykilþáttur. Með sjálfbærni að leiðarljósi er horft til þess að stuðla að jákvæðum áhrifum skemmtiferðaskipa og byggir stefnan á fjórum sjálfbærnivíddum: efnahag, samfélagi, gestum og umhverfi. Meðal annars var horft til Græna plans Reykjavíkurborgar, auk þess sem stefnan hefur beina vísun í aðgerð C.7 í ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda. Var stefnan unnin að ósk Reykjavíkurborgar í samvinnu við Faxaflóahafnir og framkvæmdaraðili verkefnisins var Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins.

Stefnan byggir í grunninn á að mikilvægt sé að fylgjast með og meta þann fjölda skipa og farþega sem svæðið getur tekið á móti án þess að valda óásættanlegum áhrifum á umhverfi, samfélag og innviði. Skilgreining á því getur hins vegar breyst í takti við breytingar á innviðum og lagt er til að stefnuramminn verði endurskoðaður reglulega. Framtíðarsýnin er að áfangastaðurinn Reykjavík sé leiðandi í sjálfbærri þróun, framúrskarandi þjónustu og einstakri náttúru- og menningarupplifun þegar kemur að móttöku skemmtiferðaskipa á norðurslóðum. Með áherslu á sjálfbæra þróun stefnir Reykjavík að því að skapa jafnvægi milli efnahagslegs ávinnings og umhverfisverndar, þar sem hagsmunir íbúa, gesta og fyrirtækja eru hafðir að leiðarljósi.

Stefnan byggir einnig á því að ekki er gert ráð fyrir fjölgun skipa eða farþega á næstu árum. Á árinu 2024 tóku Faxaflóahafnir á móti 259 skipum, sem felur ekki í sér aukningu milli ára. Bókunarstaðan fram í tímann gefur til kynna að ekki verði heldur um aukningu að ræða á komandi árum og er viðmiðið að fjöldi skipa og farþega haldi sér á svipuðum stað og síðustu tvö ár, með um 230-260 skipakomur og 250-320 þúsund farþega. Hins vegar er gert ráð fyrir að aukning verði í hlutdeild farþegaskipta. Gestir sem fljúga til eða frá landinu, gista í landinu og nýta afþreyingu fyrir eða eftir ferð með skemmtiferðaskipi, skilja eftir sig mun meiri verðmæti en aðrir skipafarþegar.

Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, fagnar aðkomu hagaðila að stefnumótuninni. „Stefnan setur starfseminni mörk sem við hyggjust miða við í okkar áætlunum og markaðssetningu. Aðgerðir okkar á undanförnum árum, sem flestar miða að betri loftgæðum eða bættri þjónustu, rýma vel við þessa stefnu og við hyggjumst halda áfram á þeirri braut,“ segir hann. „Helstu fjárfestingar á næstu árum fyrir þennan geira eru áframhaldandi uppbygging landtenginga, bygging miðstöðvar fyrir farþegaskipti og þróun upplýsingatæknilausna sem bætir nýtingu innviða og auðveldar samfélaginu að auka viðskipti við útgerðir skemmtiferðaskipa.“

Umtalsverður fjárhagslegur ávinningur

Niðurstöður skýrslunnar sýna að fjárhagslegur ávinningur íslenska hagkerfisins af komum skemmtiferðaskipa er umtalsverður. Efnahagslegt umfang er metið á 37,2 milljarða króna árið 2023 og tekjur hafna á Íslandi vegna skemmtiferðaskipa voru 3,4 milljarðar sama ár. Heildarneysla farþega skemmtiferðaskipa er 22-30 milljarðar en mikill munur er á útgjöldum almennra skipafarþega og skiptifarþega, sem eyða 2,8 sinnum meira en þeir fyrrnefndu. Gert er ráð fyrir að móttaka farþega skemmtiferðaskipa í Reykjavík verði stórbætt með byggingu nýrrar fjölnota farþegamiðstöðvar við Skarfabakka sem mun geta sinnt 3500 til 4000 farþegum á dag.

Stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa má nálgast hér:

Stefna um þolmörk og mótttöku skemmtiferðaskipa 2024

Heildarskýrslu um stefnu og þolmörk um móttöku skemmtiferðaskipa má nálgast hér:

Skýrsla – stefna um þolmörk og mótttöku skemmtiferðaskipa 2024

FaxaportsFaxaports linkedin