Nú liggur fyrir aðgerðaráætlun Björgunar ehf. um hvernig megi ná Perlu á flot. Björgun ehf. hefur verið send staðfesting á því að framkvæmdaáætlunin sé samþykkt með ákveðnum skilyrðum. Bréfið til Björgunar og þeirra aðila sem málið varðar er eftirfarandi:
„Fyrir liggur tillaga Björgunar ehf. dags. 3. nóvember s.l. um hvernig mögulegt er að standa að verki við að ná Perlu af hafsbotni við Ægisgarð. Meginatriði tillögunar eru eftirfarandi:
- Skipið verði þétt eins og kostur er.
- Smíðaðir verða 7,5 metra stálstokkar sem festir verða við lúgur á fram- og afturskipi.
- Þegar lokið hefur verið við að þétta skipið verður dælum komið fyrir í stokkunum og dælt úr rýmunum í framskipi og afturskipi.
- Í afturskipinu er áætlað að dæla 468 tonnum af sjó og í framskipi 247 tonnum. Með þessari aðgerð verður þess freistað að lyfta skipinu.
- Á Ægisgarði verður staðsettur krani sem notaður verður til að tryggja stöðugleika skipsins þegar það lyftist frá botni.
- Í fyrramálið munu kafarar skoða skipið frekar og verður þá tekin endanleg ákvörðun um aðgerðir.
- Verði niðurstaðan að hefja dælingu úr skipinu þá er stefnt að því að sú vinna hefjist í dag kl. 17:00.
- Takist vel til er gert ráð fyrir að um 6 klukkustundir taki að dæla úr skipinu.
Áætlun Björgunar hefur verið kynnt viðeigandi aðilum og einungis borist athugasemdir varðandi aðgerðir til varnar mengun.
Hér með er áætlun Björgunar ehf. samþykkt með eftirfarandi skilyrðum:
- Ægisgarði verði lokað við suðurenda þjónustuhúss tímanlega áður en aðgerðir hefjast.
- Ónauðsynlegur búnaður verði fjarlægður af bryggjunni áður en dæling hefst.
- Til staðar verði búnaður, svo sem dælubíll, mengunarvörn utan um skipið, felliefni o.fl til þess að varna mengun þegar dæling úr skipinu hefst.
- Gætt verði sérstaklega að því að álag frá krana, sem staðsettur verði á Ægisgarði fari ekki umfram þau mörk sem fram kemur í aðgerðaráætluninni.
- Fulltrúi Faxaflóahafna sf. fylgist með aðgerðum.
- Send verði út tilkynning á alla viðkomandi aðila þegar endanleg ákvörðun hefur verið tekin að hefjast handa.“