IMG_0549Fulltrúar Faxaflóahafna sf. og bandaríska iðnfyrirtækisins Silicor Materials Inc. undirrituðu í dag samninga um lóð, lóðarleigu og afnot af höfn vegna fyrirhugaðrar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga.
Theresa Jesterm, forstjóri og Gísli Gíslason,  hafnarstjóri undirrituðu fyrir hönd Silicor og Faxaflóahafna.
Mikilvægt skref var stigið í verkefninu í dag. Fjármögnunarsamningar þess eru á lokastigi. Bandaríska fyrirtækið stefnir að því að hefja framkvæmdir haustið 2015 og framleiðslu á síðari hluta árs 2017.
Áætlað er að um 450 manns starfi á Grundartanga á vegum Silicor. Þetta verður vinnustaður með hátæknistarfsemi sem krefst fagfólks á mörgum sviðum, ekki síður kvenna en karla.
Sólarkísilverksmiðjan á Grundartanga er meðal stærstu einstakra fjárfestingarverkefna á Íslandi, upp á jafnvirði um 122 milljarða króna. Þar verður hreinsaður kísilmálmur með nýrri og umhverfisvænni aðferð sem Silicor hefur fengið einkaleyfi á. Hreinn kísill er notaður í sólarhlöð.
Aðstæður og hafnarstarfsemi henta Silicor fullkomlega
Gísli Gíslason, hafnarstjóri segir að samningarnir séu mikill áfangi fyrir Faxaflóahafnir, Grundartangasvæðið og raunar allt athafna- og vinnusvæðið á Suðvestur- og Vesturlandi:

„Ég hlýt að vekja athygli á að Faxaflóahafnir taka hér þátt í að „landa“ risastóru fjárfestingarverkefni sem hafa mun mikil áhrif á atvinnulífið, einkum á Suðvestur- og Vesturlandi, og stuðla að efnahagslegri uppbyggingu á Íslandi yfirleitt.

Auðvitað eru þetta mikil tíðindi fyrir Faxaflóahafnir, fyrirtæki sem stuðlar reyndar að því að fleiri hjól snúist í atvinnulífi landsmanna en fólk flest gerir sér grein fyrir. Þá skal líka halda til haga að Grundartangahöfn vann markvisst að því á sínum tíma að tengja saman Suðvesturhornið og Vesturland í eitt atvinnusvæði með því að taka þátt í að stofna Spöl og grafa göng undir Hvalfjörð!“

Theresa Jester, forstjóri Silicor Materials:

„Aðstæður og hafnarstarfsemi Faxaflóahafna sf.  á  Grundartanga henta starfsemi Silicor fullkomlega og þjóna því markmiði fyrirtækisins að koma  framleiðsluvörum sínum fljótt og örugglega til viðskiptavina en halda jafnframt rekstrarkostnaði í skefjum.

Við horfum mjög til möguleika sem staðsetning Grundartangahafnar skapar á heimsvísu, mitt á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku. Við  hlökkum til þess að hefja rekstur á Íslandi og starfa með Íslendingum í væntanlegri verksmiðju og við Grundartangahöfn.“

Því er við að bæta að:

  • Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu vorið 2013 að „hreinsun kísilmálms til framleiðslu á sólarkísli á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit sé ekki líkleg til að hafa í för  með  sér  umtalsverð  umhverfisáhrif  og  skuli  því  ekki  háð  mati  á umhverfisáhrifum.“
  • Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. skilaði sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar  greinargerð og komst að þeirri niðurstöðu að „í stuttu máli virðist fyrirhuguð verksmiðja Silicor Materials á Grundartanga stefna í að verða umhverfisvænsta stóriðja á Íslandi til þessa.“
  • Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar lýsti stuðningi við áform Silicor í desember 2014 og kvað þau vera „í fullu samræmi við nýsamþykktar skipulagsáætlanir og áherslur sem Hvalfjarðarsveit leggur til við uppbyggingu á iðnaðarsvæðinu.“

FaxaportsFaxaports linkedin