Í fyrra fóru 4,700 tonn af fiski í gegnum Fiskmarkað Íslands á Grandanum í Reykjavík en á árinu 2013 var magnið 4,900 tonn og því um það bil 10% samdráttur á milli ára. Örn Smárason, forstöðumaður Fiskmarkaðarins í Reykjavík, segir að 1,000 tonn af ýsu hafi verið boðin upp, 520 tonn af þorski, 430 tonn af steinbít og 730 tonn af karfa. Til viðbótar bolfiski fóru 600 tonn af þorsk- og ufsalifur í gegnum markaðinn. Uppboðsandvirði ársins 2014 í Reykjavík var 1,1 ma. króna á móti 1,2 ma. króna árið þar áður.
Á Akranesi fóru 1,067 tonn í gegnum fiskmarkaðinn á móti 1,240 tonnum árið 2013 sem er samdráttur um 14%. Samsetning aflans sem var boðinn upp var 640 tonn þorskur, 130 tonn ýsa og 150 tonn af grásleppu. Verðmæti aflans nam 270 m. króna. Rögnvaldur Jónsson, forstöðumaður Fiskamarkaðarins á Akranesi, segir að þróunin hafi verið niður á við í nokkur ár og til dæmis hafi magnið sem fór í gegnum markaðinn fyrir 6 til 7 árum verið 2,500 tonn á móti 1,067 tonnum í fyrra. Rögnvaldur segir helstu ástæðuna fyrir samdrættinum sé að færri bátar stundi nú útgerð af Skaga og kvótinn hafi hörfað af svæðinu.