Framundan eru m.a. eftirfarandi verkefni:

1.  Tilboð í Grandagarð 14.  Þann 8. janúar verða skoðuð þau tilboð sem væntanlega berast í húsið.

2.  Auglýst verður sala skrifstofubyggingar á Laugarnesi og tilboð í það hús berast væntanlega í febrúarbyrjun.  Þá er einnig fyrirhugað að auglýsa eignarhluta hafnarinnar í Hafnarhúsinu til sölu en ganga þarf frá ákveðnum atriðum áður en það verður mögulegt.

3.  Óreiðubátavesen kallar á aðgerðir.  Vonir standa til að Hágangur kveðji höfnina sem allra fyrst og unnið er að því að losna við Thor einnig, en hann bíður uppboðs.  Tveir bátar eru sínu verst á sig komnir í Vesturhöfninni og ætlunin að ganga í þau mál.  Eigendur fleiri báta fengu aðvörun í pósti í desember og ætlunin að fylgja þessum málum eftir og losna við sem fyrst þá sem ekki eru sjóhæfir og í vanskilum.

4.  Faxaflóahafnir sf. fá nú í janúar afsal að eignum á Gelgjutanga þar sem hluti lóðar ODR fellur til hafnarinnar.  ODR flytur þó ekki af þessum hluta lóðarinnar fyrr en í sumar eða haust en þá er meiningin að Húsasmiðjan fái þar lóð til að stækka vöruhús sitt.  ODR hyggst hins vegar byggja upp aðstöðu í Örfirisey á lóð sem félagið hefur yfir að ráða þar.

5.  Grandagarður 8 verður afsalað til Sjóminjasafnsins á næstu dögum og hlutverk hafnarinnar verður að ganga frá húsinu að utan eins og lofað var á 90 ára afmæli Reykjavíkurhafnar.

6. Í næstu viku, 10. 12. janúar, koma í heimsókn fulltrúat Oslóarhafnar.  Tilgangur ferðar þeirra er að skoða það sem verið er að gera hjá Faxaflóahöfnum sf. auk þess sem þetta mun vera vinnuferð hjá stjórnendum hafnarinnar.  Síðan er von á heimsókn um miðjan janúar frá kínverksu höfninni Yantai Port.

7.  Framkvæmdir við Mýrargötusvæðið eru í gangi og þar er stefnt að sölu byggingarréttar með vorinu.  Áður en það gerist er meining að rífa eignir og vinna í lagna- og gatnagerð, en hægt og bítandi færist svæðið nær því deiliskipulagi sem þar er í gildi.

8.  Fyrir næsta fundi hafnarstjórnar, sem verður þann 15. janúar verða m.a. lögð fram drög að samningi við Mjólkurfélag Reykjavíkur um innlausn hafnarinnar á eignum MR og úthlutun lóðar fyrir starfsemina á Grundartanga.  Þetta er viðamikið verkefni sem m.a. er liður í uppbyggingu á Grundartanga og endurskipulagningu á reitum í Sundahöfn.

9. Á Grundartanga er búið að staðfesta nýtt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir aðstyöðu lóðsbáta og landfyllingu austan við höfnina og lóðir í landi Klafastaða.  Unnið er að úthlutun lóða þar og þegar búið að gefa MR vilyrðir fyrir lóð en að auki er verið að skoða lóðarumsóknir fyrirtækjanna Blikk og stál, Héðins hf., Stálsmiðjunnar og fleiri aðila.  Hluti lóðanna verður tilbúinn til að byggja á í marsmánuði en hluti í vor.  Veitumál eru til skoðunar á svæðinu m.a. í samstarfi við OR.  Á árinu 2008 verður unnið áfram að gerð deiliskipulag svæðisins og væntanlega mun megin skipulag liggja fyrir í lok ársins.

10.  Á Akranesi er verið að skoða ákveðnar hugmyndir um framtíðar skipulag hafnarinnar.  Fulltrúum Akraneskaupstaðar verða kynntar hugmyndir á næstu dögum um hvernig megi bæta hafnarsvæðið og auka rými næst aðalhafnargarðinum.

11. Niðurstaða rekstrar á árinu 2007 var þokkaleg.  Nú fer að hefjast vinna við uppgjör, en afkoman var viðunandi að flestu leyti.  Tekjur af vörugjöldum jukust auk þess sem tekjur af sölu byggingarréttar voru talsverðar.  Útgjöld voru almennt innan áætlunar.

12.  Unnið er að undirbúningi flutning Björgunar úr Sævarhöfða í Álfsnes, en þar eru þó nokkur handtök eftir áður en eitthvað fer að skýrast hvernig að því verður staðið.  Þá hafa átt sér stað ákveðnar viðræður um land hafnarinnar í Gufunesi go áhugi Faxaflóahafna sf. er að það megi reisa vöruhúsabyggð með ákveðnum landfyllingum, en allt eru þetta atriðið sem lúta endurskoðun á aðalskipulagi borgarinnar.

13. Nú fer að sjá fyrir endann á endurnýjun mannvirkja í Vesturhöfninni.  Rafmagnsmál eru þar á lokasprettinum svo og frágangur við smábátauppsátur við Eyjarslóð.

14. Sagt hefur verið frá vinnu við landuppslýsingharkerfi hafnarinnar, en meining er að vinna við það verði langt komin í febrúar.  Eins og áður hefur verið getið lýkur slíkri vinnu aldrei heldur þarf að uppfæra slíkan grunn þannig að hann nýtist í daglegu amstri.  Nánar verður gerð grein fyrir þessu máli eftir því sem fram vindur.

15. Unnið er að lengingu Vogabakka um 150 metra og í haust ætti það verk að verða komið vel áleiðis.

16. D-reitur (ýmist nefndur Hallveigarbakki eða Skúlabakki).  Verið er að vinna í umhverfismati fyrir þessa framkvæmd, en ekki liggur fyrir hvernig standa eigi að verki við mannvirkið sem á að þjóna viðlegu og aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip.  Áður en lengra er haldið þarf að skoða hvernig umferðarmálum verður háttað á svæðinu, aðstöðu fyrir farþega og bíla á landi og hversu mikið ætlunin er að svæðið beri í húsbyggigum. 

17. Nýr Jötunn er í smíðum í Hollandi og ráðgert að hann verði kominn til landsins í lok september.

18. Tölfræði.  Nú verður farið í að taka saman helstu niðurstöðutölur ársins 2007 og bera saman við fyrri ár.  Skipakomur (yfir 100 brt. skip) voru t.d. um 90 fleiri en á árinu 2006, fjöldi farþegar skemmtiferðaskipa var meiri en áður, gámaflutningar voru áfram vaxandi o.sv.frv. þannig að almennt var árið 2007 athafnasamt ár.  Vonandi að árið 2008 þróist með sama hætti þó svo að horfur séu e.t.v. ekki eins jákvæðar og var í byrjun síðasta árs.  Það dregur ekki kjark úr neinum.

18. Fótboltasumarið……….. sleppi því. Það vita allir hvernig fer:=“)

Læt þessa upptalningu duga – en nóg er við að vera á komandi vikum og mánuðum.  Læt ógert að ræða mál eins og Mýrargötustokk og Sundabraut þar sem ólíklegt er að mikilla eða jákvæðra tíðinda sé að vænta af þeim efnum – því miður, en áfram verður þó potað í málin.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri

FaxaportsFaxaports linkedin