Það er afar ánægjulegt að Faxaflóahafnir hafir verið tilnefnd „Stofnun ársins 2013“ í flokki stærri fyrirtækja sveitarfélaga. Slík viðurkenning ber vitni þess að starfsfólkinu líði almennt vel í vinnunni – sem er auðvitað grundvallar atriði. Við erum auðvitað heppin að því leyti að við vinnum við skemmtileg verkefni og þar sem fyrirtækið er ekki tiltakanlega stórt skiptir handtak hvers og eins miklu máli. Árangurinn er ánægjulegur fyrir stjórn og stjórnendur fyritækisins ekki síður en starfsfólkið almennt – um leið og það minnir á að halda góðri stöðu og bæta í þar sem þarf. Nú framundan eru nokkrir viðburðir sem vonandi flestir taka þátt í, en það er í kringum Hátíð hafsins. Á laugardag verður sýning opnuð á MIðbakkanum og í framhaldi verður létt samkoma á 3. hæðinni í Hafnarhúsinu áður en farið verður í Hörpuna til að hlýða á sjómannalög. Á sunnudeginum verður ný frystigeymsla HB Granda hf. opnuð kl. 13:00 og öllum boðið að mæta þar – nú svo verður auðvitað mígrútur áhugaverðra viðburða á Hátíð hafsins. Sem fyrr segir þá erum við ekki tiltakanlega fjölmennt fyrirtæki en það sem skiptir meginmáli er að hópurinn sé þéttur og vel samstilltur þannig að fyrirtækið þjónar viðskiptavinum sínum af snerpu og skilvirkni. Það er ávallt ánægjulegt að heyra frá þeim sem við þjónum að erindum sé sinnt fljótt og vel samhliða því sem við komum áfram mjög mikilvægum verkum í þágu eigendanna og athafnalífs á hafnarsvæðunum. Hafnir eru grundvallar innviðir samfélagsins og Faxaflóahafnir sf. eiga og reka megin gátt flutninga til og frá Íslandi auk þess að vera gríðarlega mikilvæg aðstaða fyrir fiskvinnslu og útgerð. Á stundum finnst okkur kannski skilningur þeirra sem ekki þekkja til vera takmarkaður – en það er þá auðvitað okkar hlutverk að koma réttum skilaboðum frá okkur í þeim tilgangi að hafnarstarfssemin njóti stöðu og skilnings að verðleikum. Í hafnarrekstrinum þurfum við samt að taka tillit til fjölmargra þátta og finna réttan takt í verkefnum og þróun hafnarsvæðanna. Til þess að ná árangri í þeim efnum er ekkert betra en að hafa traust, ánægt og öflugt starfsfólk. Enn og aftur til hamingju! Kveðja Gísli Gíslason
Til hamingju starfsfólk
12. september, 2013 | Innri vefur, Skilaboðaskjóðan