Margur tölvupósturinn skilar sér til undirritaðs um rafheima.  Eins og gengur er þetta gagnmerkur póstur – og stundum afar ánægjulegur, ekki síst þegar starfsmönnum hafnarinnar er hrósað.  Einn slíkur póstur barst mér í morgun frá Sigrúnu Magnúsdóttur í Sjóminjasafninu.  Ég set hér að neðan nokkur brot úr póstinum til upplýsingar um það sem verið er að gera í safninu – en ekki síður til þess að þakkir hennar skili sér til þeirra sem þakkir eiga skyldar. 

„Sæll og blessaður Gísli!

Mikið er orðið langt síðan að ég hef hitt þig. Mig langar að gefa þér smáskýrslu um gang mála hjá okkur hér við hafið.

Vitaskuld höldum við Aðalfund Faxaflóahafna hér í húsinu 30. maí. Húsið er að taka afar miklum stakkaskiptum að innan þessa dagana, en það gengur hægar að utan.

Þú veist svo Gísli að við erum að enduropna safnið á Hátíð hafsins og það segir að við höldum mikla hátíð þann 31. maí (laugardaginn). Þá opnum við 4 nýjar sýningar í safninu og einnig bjóðum við almenningi Óðinn til skoðunnar. Þetta er auðvitað óskaplega stórt skref og ég hef trú á að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir hvað er þó að gerast hér innan dyra.

Þínir menn hafa gert afar góða hluti á Óðinsbryggjunni og gaman að fylgjast með mönnum sem vinna jafnt og þétt. Glæsilegt. Hjartans þakkir fyrir þá aðstoð.

Eina sem ég óttast er ástandið utandyra að það fæli fólk frá, en allir eru nú meðvitaðir um að reyna að gera sitt besta þessar 6 vikur til Hátíðar hafsins. 

Mig langar í því sambandi að athuga hvort unnt sé að lagfæra ástand gangstéttar við aðalinnganginn. Okkur langar (verðum) að hafa aðalinnganginn í lagi að utan og innan – þó að annað við húsið sé auðvitað ekki frágengið 1. júní. Við sem sagt leggjum mikla áherslu á inngangurinn inn í safnið verði huggulegur 30. maí fyrir aðalfund Faxaflóahafna og enduropnunar safnsins 31. maí.“

Síðan segir:

„Hlakka mikið til að sýna þér hvað safnið verður flott. Sýningar sem opna á hátíð hafsins eru:

1. Anddyri: Yfirlitssýning um Þorleif Þorleifsson, sem gerði m.a. módelið af lestinni sem flutti grjótið í Grandann. Verkin hans eru gullmolar – mjög flott og allt meira og minna hafnartengt – tengist þannig hafnarsýningunni í Bryggjusalnum.

2. Bryggjusalurinn: Hafnarsýningin (enduropnun).

3. Miðsalur uppi: Hákarlasýning sem áherslu á hákarlalýsi sem útflutningsvöru. Vinnum hana í samvinnu við Byggjasafnið á Reykjum í Hrútafirði. Einnig verður í Miðsalnum árabátaútgerðinni gerð skil.

4. Langisalur uppi, þar sem togarasýningin var, verður sýning um sjávarútveginn frá         Skútuöld. Endurhönnum sýninguna sem var þar.

5. Hornsalur: Sjávartengd málverkasýning eftir Sigurjón Jóhannsson.

Gísli!

Höfninni eigum við svo mikið að þakka og værum ekkert án hennar í gegnum þessi síðustu fimm ár, þess vegna finnst mér að þú þurfir að fá fréttir af okkur.

Sendi mínar bestu bjartsýniskveðjur

Sigrún M.“

Að sjálfögðu reynum við að verða við ósk Sigrúnar um lagfæringar á gangstéttinni áður en hún opnar safnið – en til upplýsingar þá er auvðitað í undirbúningi stórverkefni við klæðningu safnsins sem við erum að fara í á næstu dögum, en Helgi Laxdal stýrir þeim framkvæmdum.  Tilboð í verkefnið á að skila sér í næstu viku þannig að þá fara hlutnirnir að gerast og húsið að taka stakkaskiptum.  En sem sagt:  Afar ánægjulegt að heyra hversu kát Sigrún er með hlut þeirra sem lagt hafa hönd á plóginn í þessu.  Þykist ég þar vita að Jón og hans menn í Bækistöðinni hafi lagt sig alla fram eins og venja er, piltarnir í hafnarþjónustunni sinnt færslu Óðins og brátt Magna af stakri samviskusemi og svo einnig liðið hér á skrifstofunni lagt sitt að mörkum.  Talsvert sólskin!

Kveðja Gísli G

FaxaportsFaxaports linkedin