Faxaflóahafnir sf. skiluðu eigendum sínum nokkuð góðum rekstri og rekstrarniðurstöðu á síðasta ári eða um 230 mkr. í hagnað og til eignabreytinga fóru hvorki meira né minna en um 2,3 Ma. kr. og þar af til beinna framkvæmda um 1,2 Ma. kr. auk þess sem keyptur var nýr lóðs- og dráttarbátur til hafnarinnar. Það er því óhætt að segja að siglt hafi verið seglum þöndum og árangurinn ágætur. Þau umskipti sem hafa orðið í íslensku efnahagslífi kalla hins vegar á nýjar áherslur og varkárni í þeirri siglingu sem er framundan.
Að sjálfsögðu stefnum við að því að skila jákvæðum rekstri árið 2009, en þá verður líka að horfa í hverja krónu og gæta alls þess aðhalds sem kostur er. Það eru því skilaboðin sem nú eru sett í skjóðuna og því beint til allra okkar góðu starfsmanna að leggja fyrirtækinu lið í þeim efnum – eins og hverjum er kostur. Starfsmenn þekkja m.a. þær áherslur sem kynntar hafa verið varðandi hafnarþjónustuna og ekki hefur farið framhjá neinum samkomulag um frestun á ákvæðum kjarasamninga, sem vissulega draga úr kostnaði. Til þess að verja störf og önnur laun eins og framast er kostur, þá verðum við einnig að beina sjónum okkar að öðrum þáttum sem lúta m.a. að innkaupum, tekjumöguleikum og fleira – en allt kemur að gagni í þessum efnum.
Faxaflóahafnir sf. eru öflugt fyrirtæki og þannig ætlum við að halda því. Góð niðurstaða rekstrar árið 2009 mun styrkja okkur verulega til framtíðar, en góður árangur mun ekki nást nema með samstilltu átaki allra. Til að útskýra stöðuna betur þá er frá þessu að segja:
Rekstrartekjur árið 2009 verða minni en árið 2008. Það skapar vanda. Öllum er ljóst að minni innflutningur dregur úr vörugjöldum og með óbreyttu fasteignamati þá standa tekjur okkar af lóðarleigu í stað – en lækka reyndar með samdrætti í útleigu skammtímaleigusvæða. Í fjárhagsáætlun var lagt upp með ákveðna hækkun gjaldskrár sem að hluta er komin fram, en ekki er gott að segja um nú hvort seinni hluta hækkunar verði fylgt eftir nú í maí eða júní. Það mun rýra tekjuráætlun okkar.
Rekstrargjöldum er brýnt að halda innan þess ramma sem er í fjárhagsáætlun, en þar eru ýmsar blikur á lofti. Nauðsynlegt er að halda sérverkefnum undir rekstri í lágmarki þó svo að brýn verkefni bíði. Verðlag og gengi eru óræðar stærðir, en því miður almennt óhagstæðar, þannig að fjármagnsliðir geta gert okkur skráveifu. Sem betur fer eru skuldir ekki miklar á Faxa gamla þannig að það léttir okkur róðurinn. Hins vegar höfum við þurft að leysa til okkar tvær lóðir, annars vegar á Korngörðum og hins vegar á Fiskislóð, sem grynnkar verulega á því lausafé sem við höfum. Sömu afleiðingar hafa aukin vanskil sumra viðskiptamanna okkar. Þær lóðir, sem hafa verið innleystar munu að sjálfsögðu færa okkur tekjur síðar, en þangað til verður að þreyja Þorrann. Varðandi framkvæmdir að öðru leyti þá munum við fresta þeim þáttum sem kostur er, en eftir sem áður má ætla að framkvæmdir verði í heildina um 600 mkr. á árinu. Þessa dagana er verið að skafa og tálga fjárhagsáætlunina eins og mögulegt er. Í þeim efnum er ekkert annað í boði en að horfast í augu við það verkefni að láta enda mætast.
Sem að framan er nefnt þá er mikilvægt að halda öllum þáttum í eins góðu jafnvægi og kostur er þannig að eigendur Faxaflóahafna sf. geti verið ánægðir í árslok með niðurstöðuna – en ef vel tekst til þá er heiðurinn að sjálfsögðu starfsfólksins.
Ekki var það fleira að sinni.
Kveðja Gísli G.