S I Ð A R E G L U R

starfsfólks Faxaflóahafna sf.

1. gr.

Efni

Í reglum þessum er skráð og skilgreind sú háttsemi sem allt starfsfólk Faxaflóahafna sf. sýnir af sér við störf sín.

2. gr.

Almennar starfsskyldur

Starfsfólk vinnur í samræmi við markmið og samþykktir stjórnar Faxaflóahafna sf. á hverjum tíma. Starfsfólk gegnir störfum sínum af alúð og samviskusemi, án tillits til eigin hagsmuna eða persónulegra skoðana. Starfsfólk vinnur sem ein heild og hefur hugfast að það er á ábyrgð þeirra allra að skapa góðan starfsanda og gott starfsumhverfi.
Starfsfólk gætir kurteisi og réttsýni, hefur í heiðri heiðarleika og sanngirni og starfar í anda jafnréttis. Starfsfólk sýnir öllum sem eiga erindi við Faxaflóahafnir sf. virðingu og umburðarlyndi og rækir störf sín af þjónustulund og ábyrgð.
Starfsfólk vinnur saman af heilindum að settum markmiðum starfseminnar, sýnir hvert öðru virðingu. Starfsfólk forðast að hafast nokkuð það að sem er því til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf er það vinnur við. Starfsfólk aðhefst ekkert það sem falið getur í sér misnotkun á fjármunum eða aðstöðu.
Starfsfólk hefur ávallt í heiðri grundvallarreglur góðra starfshátta í störfum sínum og gætir þess að lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för í starfsemi Faxaflóahafna sf. Þannig gæta starfsmenn þess að mismuna engum á grundvelli stjórnmálaskoðana, þjóðernis, trúarbragða, kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, fötlunar eða samfélagslegrar stöðu að öðru leyti.

3. gr.

Hæfni

Starfsfólk gætir þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfs þess á hverjum tíma. Það leggur sig fram um að viðhalda faglegri hæfni sinni og þekkingu í starfi og auka hana sjálfu sér og starfseminni til hagsbóta.

4. gr.

Trúnaður

Starfsfólk virðir trúnað um vitneskju sem það fær í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.

5. gr.

Hagsmunaárekstrar

Starfsfólk forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og vekur athygli á því ef hætta er á þeim. Þetta á einnig við ef þær breytingar verða á högum starfsfólks að valdið geti slíkum hagsmunaárekstrum.
Starfsfólk misnotar ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar. Starfsfólk upplýsir um ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi, sem það kann að verða vart við í störfum sínum.

6. gr.

Gjafir og fríðindi

Starfsfólk þiggur ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim, er leita eftir þjónustu Faxaflóahafna sf. nema að um sé að ræða óverulegar gjafir. Starfsfólk þiggur ekki gjafir eða hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

7. gr.

Val og ráðningar starfsmanna

Það starfsfólk sem hefur ráðningar starfsfólks á sínu verksviði gætir þess að fylgja lögum, ákvæðum kjarasamninga og við val og ráðningar í störf. Þess er ávallt gætt að einungis málefnalegar forsendur liggi að baki ráðningum starfsfólks.

8. gr.

Miðlun siðareglna

Siðareglur þessar, sem og aðrar þær reglur sem vísað er til, skulu vera aðgengilegar öllum og birtar á heimasíðu Faxaflóahafna sf. Kynna skal þessar reglur nýju starfsfólki er það hefur störf.

FaxaportsFaxaports linkedin