Nú liggur fyrir uppgjör Faxaflóahafna sf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins.  kreppan bítur í tekjurhlið Faxaflóahafna sf. eins og annarra fyrirtækja og rétt að gera örstutta grein fyrir helstu staðreyndum í þessu. 

Heildar tekjur fyrstu sex mánuððina voru 1.011.454.827 krónur en voru áætlaðar verða 1.051.967.000.  Mismunurinn er okkur í óhag upp á 40.5 mkr.  Stærst vegur í þessu að vörugjöld eru þessa mánuði 340.7 mkr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 428.1 mkr. þannig að mismunurinn er neikvæður um 87.3 mkr.  í fyrra voru vörugjaldatekjur á sama tíma 461.5 mkr. þannig að tekjufallið er verulegt og þrátt fyrir að reynt hafi verið að spá varlega er útlit fyrir að það muni ekki duga.  Jákvætt á tekjuhliðinni er þó að aflagjöld eru nokkru hærri en áætlun gerði ráð fyrir.

Reksturinn er nánast á áætlun þannig að þau markmið sem þar voru sett halda.  Fjármagnsliðirnir eru hins vegar talsvert hærri enda verðbólga á tímabilinu mun meiri en áætlað hafði verið og staða íslensku krónunnar afleitari en reikna mátti með.  Meginniðurstaðan er að fyrir fjármagnsgjöld er tap á rekstrinum upp á 9.5 mkr. en áætlun miðaði við 5.4 mkr. í tap – en í heildina er tapið 118.1 mkr. á meðan áætlun gerði ráð fyrir 68.6 mkr. í tap.  Gert var ráð fyrir að seinni hluti ársins myndi vega tapið upp og koma okkur yfir strikið en í ljósi þeirra talna sem nú liggja fyrir er það afar hæpið.  Því er ljóst að skoða verður reksturinn sérstaklega vegna þeirra mánaða sem eru eftir – en augljóst er einnig að miðað við tekjuhliðina þarf að ramma rekstrargjöldin inn í það sem er til ráðstöfunar – til lengri tíma.

Fjárfestingar Faxaflóahafna sf. eru innan þess ramma sem sett var en heldur dregið úr nú seinni hluta ársins.  Nokkur verkefni eru á lokastigi svo sem við Vogabakka og efnisskiptaskurður utan Klepps, en gatnagerð á Grundartanga lýkur í nóvember og á svipuðum tíma lýkur frágangi við landfyllingu í Suðurbugtinni frá Sjóminjasafni áleiðis að slippnum.

Niðurstaðan er sem sagt sú að næg verkefni eru framundan en horfa verður til þess efnahagsumhverfis sem augljóslega verður viðvarandi næstu misseri. 

Gísli G.

FaxaportsFaxaports linkedin