Þó svo að hugur flestra sé bundinn við annað en sumarleyfin þá er ekki ráð nema í tíma sé tekið.  Þess vegna er hér komið á framfæri skilaboðum vegna þeirra sem eiga ótekið sumarleyfi frá fyrra ári og til allra varðandi skipulagningu sumarleyfa á árinu 2009.  Af gefnu tilefni hafa þessi mál verið rædd við þá sem bera ábyrgð á starfsmannahaldi og nauðsynlegt að hnykkja á nokkrum atriðum. 

Án þess að vera með of mikil leiðindi varðandi þessi mál þá hefur þeim skilaboðum verið komið á framfæri að þeir sem eiga ótekið orlof frá fyrra ári – í einhverjum mæli – verði að skipuleggja starfstíma sinn þannig að gert sé ráð fyrir að áunnið frí sé tekið.  Það veldur vandkvæðum ef sumafrí safnast upp á milli ára, þó svo að vissulega geti verið eðlilegar skýringar á hvers vegna slíkt gerist.  Ýmis fyrirtæki hafa þann hátt á að eldra frí fyrnist á ákveðnum tíma – en slíkar hugmyndir hafa ekki verið uppi hér.  Engar athugasemdir eru um að á áramótum standi einhverjir dagar útaf hjá þeim starfsmönnum sem það kjósa, en slíkt þarf þó að vera innan allra skynsemismarka.

Þá er það sumarleyfi ársins 2009:  Þeim skilaboðum er hér með komið á framfæri að í byrjun maímánaðar er reiknað með því að fyrir liggi óskir og áætlanir starfsmanna um töku sumarleyfis.  Ragnar Eggertsson mun ganga eftir því að áætlaður sumarleyfistími sé skráður þannig að unnt verði að skipuleggja aðra starfsemi í takt við það.  Sem fyrr verður það meginreglan að starfsmenn nýti almennt orlof sitt á sumarleyfistímanum á tímabilinu frá 15. maí til loka september.  Í þessu sambandi má benda á orðalag ákvæðisins í kjarasamningi:  „Yfirmaður ákveður í samráði við starfsmenn, hvenær orlof skuli veitt. Honum er skylt að verða við óskum starfsmanna um, hvenær orlof skuli veitt, að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar. Yfirmaður skal fá skriflegar óskir starfsmanna um orlofstöku og skal að lokinni könnun á vilja starfsmanna tilkynna svo fljótt sem unnt er og í síðasta lagi mánuði fyrir upphaf sumarorlofstímabils, hvenær orlof skuli hefjast, nema sérstakar ástæður hamli. Vetrarorlof skal ákvarðað með minnst eins mánaðar fyrirvara.“

 Þegar nær dregur þætti undirrituðum vænt um að ljúflega verði hugað að þessum málum.

Kveðja Gísli Gíslas.  

 

FaxaportsFaxaports linkedin