Hafnfirðingar hafa boðið til heimsóknar í fjörðinn föstudaginn 6. mars n.k.  Starfsmanna- og skemmtistjórnin hefur samþykkt að þiggja boðið og verður lagt af stað í rútubíl frá Hafnarskrifstofunni kl. 15:30 þann dag.  Í Hafnarfirði verður höfnin skoðuð en síðan blandað geði við innfædda undir glaum og gleði. 

Að heimsókn lokinni í Hafnarfirði – þar sem heimamenn í hópi starfsmanna Faxaflóahafna sf. munu eflaust láta til sín taka – þá verður haldið aftur til höfuðstaðarins og slegið upp grillveislu í Grandaskála – eða Bakkaskemmu – ég man aldrei hvort er hvað í þessu – en ég veit að það er golfaðstaða komin þar upp.  Þar verður mökum boðið að slást í hópinn ef þeir vilja nálgast hinn helminginn eftir Hafnarfjarðarheimsóknina – en allavega þá verður stefnt að því að grillmatur verði borinn fram í skemmunni á.a.g. milli kl. 19:30 og 20:00.

Gleðipinnum ætti því að vera létt í hjarta við þessi tíðindi, en auglýsing um viðburðin ásamt áritunarblaði verður dreift á starfstöðvarnar.

Þá eru það krepputíðindin:  Lengi vel hafði verið gælt við að efna til hópferðar erlendis á árinu – vor eða haust.  Ákvörðun hefur verið tekin um að fresta slíkum tilburðum að sinni þannig að ekki verður af þeim unaðssemdum á árinu.  Veldur þar fyrst og fremst óheyrilegur kostnaður við slíkar ferðir.  Útþrá íslendinga og starfsfólks hafnarinnar verður þó ekki fullkomlega slökkt með þessari ákvörðun – heldur hugað að ferðalögum ef íslenskt samfélag og króna braggast í þá átt sem óskandi væri að skilaði sér fljótlega.  Það verða því innanlandsferðalög sem boðið verður upp á þetta árið og byrjað í Hafnarfirði.  Þar á eftir verður hópgönguferð um Örfirisey…..:=“) “ Þessari niðurstöðu starfsmanna- og skemmtistjórnar er hér með komið á framfæri.

Með kveðju GG

FaxaportsFaxaports linkedin