Hér eru nokkur atriði til upplýsingar og fróðleiks.  Hið fyrsta varðandi þrif og hreinsun á hafnarsvæðunum, annað varðandi skoðunarferð hafnarstjórnar s.l. föstudag og hið þriðja varðandi Humarskipið.

Þrif og hreinsun á hafnarsvæðum.

Í lok marsmánaðar fór undirritaður við þriðja mann í skoðunarferð um hafnarsvæðin í Reykjavík.  Nokkur svæði þola tiltekt og hafa starfsmenn Bækistöðvar brugðist vel við að vanda með því að frjarlægja laust drasl sem fokið hefur af svæðum þar sem framkvæmdir eru í gangi.  Að auki var málað yfir veggjakrot á verbúðunum við Geirsgötu – en það vandamál skýtur upp kollinum á hafnarsvæðinu eins og á öðrum svæðum borgarinnar.  Nokkur svæði þarf að taka til meðferðar í framhaldi en þar má m.a. nefna athafnasvæðið á Norðurgarði og svæði við Ægisgarð þar sem ástandið er ekki gott.  Rekstrardeild hefur verið falið að hnippa í þau fyrirtæki sem eiga að sinna betur umhverfi sínu og ágætt væri að koma ábendingum til Helga Laxdal um atriði sem við getum kippt í liðinn snarlega.

Skoðunarferð hafnarstjórnar.

S.l. föstudag fóru fulltrúar hafnarstjórnar í skoðunarferð um hafnarsvæðin í Reykjavík, Grundartanga og Akranes.  M.a. voru skoðaðar framkvæmdir við Mýrargötu, lengingu Vogabakka og land- og lóðagerð á Grundartanga.  Í lok dagskrár var áð í Safnaskálanum að Görðum á Akranesi þar sem nokkrir fulltrúar Skagamanna mættu á staðinn.  Til fróðleiks má geta þess að á fundi hafnarsjtórnar s.l. föstudag var ákveðið að aðalfundur Faxaflóahafna sf. verði haldinn föstudaginn 30. maí n.k.

Af Humarskipinu.

Þó nokkrir hafa spurst fyrir um þær framkvæmdir sem hafa verið í gangi í gamla Árnesinu, sem ber nú nafnið Humarskipið.  Undirritaður hefur verið að spyrjast fyrir hjá ýmsum yfirvöldum hver fari með eftirlit með þessum framkvæmdum, en fátt orðið um svör.  Nú í lok marsmánaðar þá var eigendum skipsins sent bréfkorn þar sem minnt var á ákvæði laga frá árinu 2003 um eftirllit með skipum og afrit þess bréfs sent til samgönguráðuneytis og Siglingastofnunar.  M.a. var minnt á nauðsyn þess að tryggja stöðugleika skipsins, öryggi gesta sem þar fara um borð og að afla allra nauðsynlegra leyfa sem krafist er fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð er.  Að auki var minnt á fyrri bréf og afgreiðslur hafnarstjórnar um málið en vera skipsins á þeim stað sem það er verður ekki til frambúðar.  Staðan mun vera sú að Siglingastofnun er með málið til skoðunar en eigendur skipsins munu vera búnir að leigja reksturinn til veitngafólks, sem hyggst hefja þar starfsemi innan tíða.  Þess má geta að eigendur skipsins eru mjög ánægðir hvernig til hefur tekist með framkvæmdir á skipinu, en þetta er sem sagt staða málsins og sett fram til fróðleiks.   

FaxaportsFaxaports linkedin